Misstum einbeitinguna í undirbúningnum

Ísland og Portúgal mættust á HM í Egyptalandi og mætast …
Ísland og Portúgal mættust á HM í Egyptalandi og mætast á EM annað kvöld. AFP

Paulo Pereira, þjálfari portúgalska karlalandsliðsins í handknattleik sem mætir því íslenska í fyrstu umferðinni á EM í Búdapest annað kvöld segir að það hafi verið erfitt að halda einbeitingu í lokaundirbúningnum fyrir mótið.

„Við urðum að breyta ýmsu sem við vorum búnir að skipuleggja fyrir mótið. Vandræðin vegna útbreiðslu kórónuveirunnar voru margvísleg, sérstaklega með hvernig við unnum frá degi til dags. Það er nær útilokað að vera stöðugt að breyta hlutunum svo við reyndum að halda okkar striki eins og hægt var," sagði Pereira á vef portúgalska handknattleikssambandsins.

„Þetta var mjög erfitt því við höfðum ráðgert að vera með 23 æfingar með liðið fyrir mótið en við urðum að aflýsa sumum og breyta öðrum, æfa í litlum hópum, og fyrir vikið misstum við dálítið einbeitingu okkar á keppninni og væntanlegum andstæðingum, því aðalatriðið var að finna út hverjir yrðu leikfærir.

Þetta var snúið en þar sem við erum nokkuð góðir í því að fást við kaotískt ástand þá held ég að við höfum komist ágætlega í gegnum þetta. Nú erum við fyrst og fremst ánægðir með að allir gátu farið með á mótið þó ekki séu allir klárir í fyrsta leikinn," sagði Pereira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert