Fundu að kröfum lögmanns vegna ummæla konu á TikTok

Konan sagði frá því að hafa orðið fyrir kynferðisbroti og …
Konan sagði frá því að hafa orðið fyrir kynferðisbroti og ýmsu ofbeldi af hálfu ákveðins manns. AFP/Mario Tama

Úrskurðarnefnd lögmanna telur kröfu lögmanns, um afsökunarbeiðni konu vegna ummæla hennar á TikTok um meint kynferðisbrot, vera „aðfinnsluverða“.

Konan sagði frá því að hafa orðið fyrir kynferðisbroti og ýmsu ofbeldi af hálfu ákveðins manns á eigin samfélagsmiðlareikningi. 

Maðurinn leitaði til lögmannsstofu þann 5. ágúst 2022 með beiðni um hagsmunagæslu vegna málsins, að því er fram kemur í máli úrskurðarnefndar lögmanna.

Kann að reynast „verulega kostnaðarsöm“

Lögmaðurinn hafði samband við konuna sama dag og krafðist þess af henni að hún tæki út allar ávirðingar í garð skjólstæðings síns af samfélagsmiðlum og að hún bæðist afsökunar í kjölfarið.

„Hvoru tveggja skal berast mér fyrir lok dags á sunnudaginn n.k. – Farir þú ekki að ofangreindum kröfum hefur [C] falið mér að höfða má[l] gegn þér fyrir héraðsdómi, þar sem krafa verður gerð um ómerkingu ummæla, greiðslu miskabóta, auk þess sem krafist verður fangelsisrefsingar yfir þér. – Verði þessi leið farin kann hún að reynast þér verulega kostnaðarsöm, auk þess sem þér kann að vera gerð fangelsisrefsing. Ég ráðlegg þér eindregið að leita lögmannsaðstoðar vegna ofangreindra krafna,“ mun lögmaðurinn hafa skrifað til konunnar.

Tvo frídaga til að forða sér frá fangelsisvist

Í erindi konunnar til úrskurðarnefndar kvartaði hún yfir því að haft hafi verið samband við hana eftir klukkan 15 á föstudegi og hún fengið frest til klukkan 16 á sunnudegi til að ráðfæra sig við lögfræðing, sem reynst hafi ómögulegt innan þessa skamma frests.

Hún bendir á það að í tölvubréfinu hafi verið tiltekið að krafist yrði fangelsisrefsingar yfir henni og að henni kynni að vera gerð fangelsisrefsing.

Þannig hafi lögmaðurinn með því orðalagi viðhaft alvarlega hótun í garð hennar. Sú hótun hafi valdið henni ótta enda hafi hún talið að hún hefði aðeins tvo frídaga til að forða sér frá fangelsi.

Þá hafi orðalag í tölvubréfi lögmannins ekki mátt skilja öðruvísi en svo að hann hefði raunverulega möguleika á að koma konunni „í fangelsi og það býsna hratt“, að því er fram kemur í kvörtun hennar til úrskurðanefndarinnar.

Háttsemi lögmannsins aðfinnsluverð

Niðurstaða úrskurðarnefndar var að háttsemi lögmannsins, að gera kröfu um að konan bæðist afsökunar á nánar tilgreindum ummælum um umbjóðanda varnaraðila innan þess skamma tímafrests sem veittur var og var utan almenns skrifstofutíma lögmanna, hafi verið aðfinnsluverð.

Að öðru leyti verður ekki talið að lögmaðurinn hafi gert á hlut konunnar með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka