„Við ætlum að vinna þá“

Viggó Kristjánsson í leik á móti Portúgal í undankeppninni á …
Viggó Kristjánsson í leik á móti Portúgal í undankeppninni á Ásvöllum fyrir ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, segir að innan landsliðshópsins hafi menn lagt áherslu á undanfarna daga að skoða fyrsta andstæðinginn, Portúgal, auk þess að fínpússa leik íslenska liðsins. 

„Frá því á síðustu æfingunni heima á Íslandi höfum við einbeitt okkur að Portúgölunum. Við höfum skoðað eldri leiki gegn þeim en höfum einnig séð leiki sem þeir spiluðu í nóvember. Við erum vel undirbúnir og erum í raun búnir að fara yfir allt sem þeir gera,“ segir Viggó en mbl.is ræddi við hann í Búdapest í gær. 

Ísland og Portúgal hafa ítrekað mæst í mótsleikjum á síðustu árum. Ísland vann þegar þau mættust á EM í Svíþjóð fyrir tveimur árum. Fyrir ári síðan vann Portúgal tvo af þremur leikjum. Liðin unnu sitt hvorn leikinn í undankeppni EM en voru svo einnig saman í riðli á HM í Egyptalandi og þá vann Portúgal. Sumir þessara leikja hafa verið nokkuð harðir og Alexander Petersson fékk til að mynda þungt höfuðhögg í fyrri leiknum í undankeppninni í fyrra. Hefur myndast rígur á milli þessara liða? 

„Ég held að það sé alveg hægt að segja það. Það er „attitude“ í þeim og smá hroki út á við finnst manni. Ég held til dæmis að Gumma [Guðmundi landsliðsþjálfara] sé ekkert svakalega vel við þjálfara þeirra. Okkur langar að slást við þá og hlökkum bara til. Okkur finnst við vera betri og það vantar einhverja menn í þeirra lið. Við ætlum að vinna þá,“ sagði Viggó ákveðið en þegar hann talar um að slást þá er hann að vísa til þess að í portúgalska liðinu hafa verið margir líkamlega sterkir leikmenn.

„Þannig hefur það verið í  leikjunum á móti þeim. En við höfum einnig farið yfir hvað við hefðum mátt gera betur í leikjunum í fyrra. Vonandi getum við komið þeim eitthvað á óvart á föstudaginn,“ sagði Viggó í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert