Fótbolti

Bayern staðfestir komu Manés: „Fann strax fyrir miklum áhuga frá þessu frábæra félagi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sadio Mané lék með Liverpool í sex ár.
Sadio Mané lék með Liverpool í sex ár. getty/MAURICE VAN STONE

Sadio Mané er genginn í raðir Bayern München frá Liverpool. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Þýskalandsmeistaranna. Talið er að Bayern hafi greitt um 35 milljónir punda fyrir Senegalann.

Mané lék með Liverpool á árunum 2016-22 og vann allt sem hægt var að vinna með félaginu. Hann skoraði 120 mörk í 269 leikjum fyrir Rauða herinn.

Hinn þrítugi Mané er þriðji leikmaðurinn sem Bayern fær í sumar. Áður voru Ryan Gravenberch og Noussair Mazraoui komnir frá Ajax.

„Ég er hæstánægður með að vera loksins kominn til Bayern í München. Við töluðum mikið saman og ég fann strax fyrir miklum áhuga frá þessu frábæra félagi. Það var enginn efi í mínum huga,“ sagði Mané.

„Þetta er rétti tíminn fyrir þessa áskorun. Ég vil ná hámarks árangri með félaginu, líka í Evrópukeppni.“

Bayern varð þýskur meistari á síðasta tímabili, tíunda árið í röð. Liðið féll hins vegar úr leik fyrir Villarreal í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×