Ís­lensk lög­regla yfir­heyrði Sverri í Brasilíu

Fjórir lögreglumenn frá Íslandi héldu til Brasilíu til að yfirheyra …
Fjórir lögreglumenn frá Íslandi héldu til Brasilíu til að yfirheyra Sverri Þór Gunnarsson. Embætti héraðssaksóknara sér um rannsókn íslensks anga þess ásamt fleiri lögregluembættum. Samsett mynd

Fjórir íslenskir lögregluþjónar héldu nýlega til Rio de Janeiro í Brasilíu þar sem þeir tóku skýrslu af Sverri Þór Gunnarssyni, sem þar situr í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli. Sverrir neitaði hins vegar að tjá sig, en rannsókn íslensku lögregluþjónanna tengist bæði hundrað milljóna peningaþvættismáli á Íslandi og fíkniefnainnflutningi til Íslands.

Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is, en embættið fer með rannsókn málsins þó fleiri embætti hafi komið að henni.

Sverrir var handtekinn á heimili sínu í borginni Rio de Janeiro þann 12. apríl síðastliðinn, hann hefur því verið í haldi í rétt rúmar sex vikur.

Brasilíska alríkislögreglan hefur greint frá því að verði hann ákærður þar í landi verði það líklega fyrir peningaþvætti og fíkniefnasmygl. Handtaka Sverris var hluti af stórri aðgerð brasilísku alríkislögreglunnar en þar komu íslenskir og ítalskir lögregluþjónar einnig við sögu.

Um fimmtíu manns með stöðu sakbornings

Peningaþvættismálið sem um ræðir teygir anga sína aftur til ársins 2019 þar sem fjöldi fólks er grunaður um að hafa umbreytt um átta hundruð til níu hundruð milljónum íslenskra króna í erlenda mynt. Talið var að peningaþvættið hefði staðið yfir í á þriðja ár áður en embætti héraðssaksóknara réðst í samræmdar aðgerðir ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra vegna málsins.

Héraðssaksóknari segir nærri fimmtíu manns vera með stöðu sakbornings í málinu. Greint var frá því að peningaþvættið hafi farið þannig fram að fólk hafi ítrekað farið í banka og skipt einni milljón króna yfir í evrur. Fyr­ir hverja slíka ferð fékk fólkið í kring­um tíu þúsund krón­ur að laun­um, en allir grunuðu eru ungir Íslendingar, á milli tvítugs og þrítugs þegar málið kom upp árið 2019. Enginn hefur enn verið ákærður í málinu, en samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur það beðið í kerfinu þar sem reynt var að komast nær eiginlegum skipuleggjendum.

Upplýsingar úr EncroChat nýst við rannsóknir

Samkvæmt upplýsingum mbl.is er fíkniefnamálið sem um ræðir stóra kókaínmálið þar sem flytja átti um 100 kíló af kókaíni til landsins í timbursendingu. Þá er einnig talið að snerting sé við önnur stór fíkniefnamál, en upplýsingar frá frönskum yfirvöldum úr dulkóðaða samskiptaforritinu EncroChat, sem var mikið notað af glæpamönnum víða um heim, varð til þess að menn lögðu saman tvo og tvo við rannsókn nokkurra mála. Það átti meðal annars við um saltdreifaramálið svokallaða líkt og fram hefur komið við meðferð málsins fyrir dómi

Í fyrra greindi lögreglan meðal annars frá því að lagt hefði verið hald á 1,7 milljarða í tengslum við umfangsmikla rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi hér á landi, auk mikils magns fíkniefna. Var þá jafnframt greint frá því að EncroChat hefði komið við sögu í rannsókn lögreglunnar tengt innflutningi á fíkniefnum og peningaþvætti. Ólafur segist þó ekki geta staðfest neitt í tengslum við fíkniefnarannsóknina og hvaða máli yfirheyrslan nú tengist, en fíkniefnahlutinn er á herðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, segist ekki vilja tjá sig um það hvort að ákveðnir einstaklingar séu til rannsóknar eða hafi verið yfirheyrðir en að samstarf við brasilísku lögregluna hafi staðið til.

„Í tengslum við aðgerðir brasilísku lögreglunnar þá stóð til að yfirheyra Íslending þar líka og það tengist málum sem við erum með til rannsóknar. En hver það er, það ætla ég ekki að staðfesta," segir Grímur í samtali við mbl.is. 

Milljarða verðmæti í „Match point“

„[...] Málið hefur náttúrulega bara sinn framgang í Brasilíu og ef Ísland hefur hug á því að biðja um framsal á einhverjum í Brasilíu þá fer það í þann farveg sem lög í Brasilíu kveða á um. Til dæmis hér á Íslandi er það nú þannig, að ef að menn hafa verið undir rannsókn hér á Íslandi og eiga óafplánaða dóma þá klára þeir það fyrst áður en þeir eru framseldir úr landi,“ segir Ólafur um stöðu máls Sverris.

Hann segir að réttarbeiðni hafa verið til staðar frá íslensku lögreglunni til þeirrar brasilísku. Réttarbeiðni er beiðni um aðstoð við rannsókn sem er til staðar á Íslandi en beinist að aðila sem er búsettur erlendis. Þá hafi lögreglan einnig aðstoðað brasilísk yfirvöld við aðgerðirnar þar.

Brasilíska alríkislög­regl­an tel­ur verðmæti eign­anna sem lagt var hald á …
Brasilíska alríkislög­regl­an tel­ur verðmæti eign­anna sem lagt var hald á í Match point-aðgerðinni geta numið um 150 millj­óna bras­il­ísks ríal eða um 4,2 millj­örðum ís­lenskra króna. Ljósmynd/Brasilíska alríkislögreglan

Aðgerðin í Brasilíu var nefnd „Match point“ og tóku um 250 lögregluþjónar þátt. Í aðgerðunum lagði lög­regla hald á 65 kíló af kókaíni, 225 kíló af kanna­bis­efn­um og 57 fast­eign­ir auk öku­tækja og skipa ásamt því að loka fyr­ir banka­reikn­inga 43 ein­stak­linga.

Brasilíska alríkislög­regl­an tel­ur verðmæti eign­anna sem lagt var hald á geta numið um 150 millj­óna bras­il­ísks ríal eða um 4,2 millj­örðum ís­lenskra króna. Greint hef­ur verið frá því að Match Po­int-aðgerðin sé tal­in vera af frem­ur um­fangs­mikl­um toga en um þrjátíu handtökur voru framkvæmdar í tengslum við aðgerðina. 

Voru úti í hartnær 10 daga

Ólafur segir fjóra íslenska lögregluþjóna hafa verið senda til Brasilíu, þeir hafi verið á svæðinu í hartnær tíu daga, fyrir, á meðan og eftir að aðgerð lauk. Réttarbeiðnin hafi verið send út vegna tveggja mála, rannsóknar á peningaþvætti sem embætti héraðssaksóknara sjái um og fíkniefnamáli sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sjái um.

Hann segist ekki geta tjáð sig um það hvort að yfirheyrslur íslensku lögreglunnar yfir Sverri hafi gengið betur en hjá brasilísku kollegum þeirra. Bæði á Íslandi og í Brasilíu hafi sakborningar þó rétt á því að neita að svara spurningum sem lögreglan leggi fyrir þá samkvæmt réttarfarsákvæði.

„En það skiptir máli fyrir rannsókn svona mála að það sé reynt að ná skýrslunni þannig að þegar neitunin er komin þá bara stoppar það. Fyrir dómstóli þá er það bara líkt og það að viðkomandi hafi mætt og neitað að tjá sig. Þá er ekki gat í málinu vegna þess að það vanti skýrslu af sakborningi. Málið er, fyrir íslensk yfirvöld, og náttúrulega yfirvöld yfirleitt, að ná skýrslu og fá fram afstöðu til þess hvort viðkomandi gefi skýrslu eða ekki eða neitar einfaldlega að tjá sig,“ segir Ólafur. 

Leggja þetta ekki á sig fyrir ekki neitt 

Væri rétt að segja að það hefði verið tekin skýrsla af honum vegna þess að hann liggi undir grun eða sé talinn tengjast málinu?

„Ja, það er náttúrulega ljóst að ef við erum að leggja þetta á okkur að það er einhver sakborningsstaða þarna inni í myndinni, en nákvæmlega hvaða hlut eða þátt hann er grunaður um að hafa átt í því máli, það getum við ekki kommentað á núna,“ segir Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert