Viðskipti innlent

Út­lit fyrir 7,6 milljarða hagnað Ís­lands­banka á síðasta árs­fjórðungi

Eiður Þór Árnason skrifar
Hagur Íslandsbanka hefur vænkast milli ára.
Hagur Íslandsbanka hefur vænkast milli ára. Vísir/Egill

Drög að uppgjöri Íslandsbanka fyrir þriðja ársfjórðung benda til að hagnaður hafi numið 7,6 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli verið 15,7%.

Til samanburðar nam hagnaður bankans 3,4 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi árið 2020 og arðsemi eiginfjár 7,4%. Greiningaraðilar höfðu nú spáð 4,6 milljarða króna hagnaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum en rekstrartekjur síðasta ársfjórðungs nema um 13,3 milljörðum króna sem er 20,6% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Þar af nema hreinar vaxtatekjur um 8,8 milljörðum króna, hreinar þóknanatekjur um 3,4 milljörðum og hreinar fjármunatekjur um 0,9 milljörðum króna.

Að sögn bankans jukust hreinar fjármunatekjur milli ára aðallega vegna jákvæðrar virðisbreytingar á fjárfestingu í óskráðum hlutdeildarfélögum. Rekstrarkostnaður fjórðungsins nemur um 5,7 milljörðum króna samanborið við 5,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020.

Jákvæð virðisrýrnun 

Áréttað er í tilkynningu að uppgjörið og kynningarefni fyrir þriðja ársfjórðung 2021 sé enn í vinnslu og því geti tölurnar tekið breytingum fram að birtingardegi þann 28. október næstkomandi.

Að sögn bankans skýrast frávikin milli ára og frá markmiðum bankans að stærstum hluta af því að virðisrýrnun er jákvæð. Er um 1,8 milljarður króna færður til tekna vegna þess í fjórðungnum, að mestu leyti vegna bjartari horfa í ferðaþjónustu og minni óvissu í mati á vanefndarlíkum einstaklinga í kjölfar uppfærðs áhættumatslíkans. 

Til samanburðar færði bankinn um 1,1 milljarð króna til gjalda í virðisrýrnun á þriðja ársfjórðungi sem tengdist að mestu leyti þeirri óvissu sem uppi var vegna Covid-19 faraldursins á þeim tíma.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Áframhaldandi uppsagnir hjá bönkunum

Stóru bankarnir þrír sögðu samanlagt upp 39 manns í september. Landsbankinn sagði upp níu starfsmönnum og Arion banki sex í fyrradag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×