B.1.1.7 verði allsráðandi í mars

AFP

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, The Centers for Disease Control and Prevention (CDC), telur líklegt að bráðsmitandi afbrigði Covid-19 sem fyrst greindist í Bretlandi verði allsráðandi í smitum í Bandaríkjunum í mars. Stofnunin varar við því að smitum eigi væntanlega eftir að fjölga mjög hratt á næstunni.

Nýja afbrigðið, B.1.1.7, hefur verið staðfest hjá 76 einstaklingum í tíu ríkjum Bandaríkjanna nú þegar. Tvö önnur afbrigði, annað sem greindist fyrst í Suður-Afríku og hitt í Brasilíu, eru einnig talin vera meira smitandi heldur en það sem kom faraldrinum af stað fyrir ári. Unnið er að rannsóknum á því hvort þetta sé rétt. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum á Englandi virðist B.1.1.7 vera 30-50% meira smitandi en fyrri afbrigði. Aftur á móti er ekkert sem bendir til þess að fólk veikist meira af þessu afbrigði en öðrum.

Frétt BBC

Viðvörun CDC var gefin út í gær, sama dag og Joe Biden verðandi forseti Bandaríkjanna kynnti áform sín um að gera stórátak í bólusetningum. Til þess að ná markmiðum sínum um að bólusetja 100 milljónir Bandaríkjamanna fyrstu 100 dagana í embætti ætlar Biden stjórnvöldum stærri hlut í að dreifa bóluefninu. 

Setja á upp bólusetningarmiðstöðvar, ráða fleira heilbrigðismenntað fólk til starfa og tryggja að nægt bóluefni sé til staðar fyrir alla. Þar á meðal samfélög minnihlutahópa sem hafa orðið illa út úr veirunni. 

Opinberar upplýsingar sýna að nú þegar hafi 12,2 milljónir skammta af bóluefni verið notaðir en ríkin hafa fengið í sínar hendur alls 30 milljónir skammta. Biden gagnrýnir harðlega að ekki hafi fleiri verið bólusettir. 

Dauðföllum hefur fjölgað um 1000% í Kaliforníu af völdum Covid-19 …
Dauðföllum hefur fjölgað um 1000% í Kaliforníu af völdum Covid-19 frá því í nóvember. AFP

Alls hafa 23,5 milljónir Bandaríkjamanna smitast af Covid-19 og hafa smitin hvergi verið jafn mörg í neinu ríki. Af þeim eru 391 þúsund látnir og skipa Bandaríkin fimmta sæti á lista yfir þau ríki þar sem dauðsföllin eru flest en alls eru yfir tvær milljónir jarðarbúa látnar af völdum veirunnar. 

Af ríkjum Bandaríkjanna er ástandið verst í Kaliforníu en þar hefur dauðsföllum fjölgað um meira ein 1000% frá því í nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert