Forsætisráðherrann Donald Tusk greindi frá því í gær að ríkisstjórn hans myndi nú vinna að því að auðvelda aðgengi að slíkum neyðarpillum, sem eru hormónalyf sem tekið er eftir samfarir til að koma í veg fyrir þungun.
Hefur ríkisstjórnin Tusks nú samþykkt drög að frumvarpi sem lagt verði fyrir þingið og felur í sér að ekki þurfi lengur ávísun læknis til að nálgast lyfið.
Tusk segir að samkvæmt frumvarpsdrögunum verði neyðarpillan aðgengileg fyrir allar konur, fimmtán ára og eldri. Vonast hann til að þingið samþykki frumvarpið og sömuleiðis að forsetinn staðfesti lögin. Forsetinn Andrzej Duda, sem er hliðhollur fyrrverandi stjórnarflokknum Lögum og rétti, getur beitt neitunarvaldi gegn öllum þeim lagabreytingum sem þingið samþykkir.
Forsætisráðherrann segir að ríkisstjórn hans vinni sömuleiðis að því að slaka á löggjöfinni þegar kemur að þungunarrofi, en fyrri stjórn herti reglur verulega þegar kom að slíku. Þungunarrof er hitamál í Póllandi þar sem mikill meirihluti íbúa eru kaþólskur.
Mikið hefur gustað í pólskum stjórnmálum bæði fyrir og eftir þingkosningar sem fram fóru í október. Duda náðaði fyrr í vikunni tvo fyrrverandi ráðherra sem höfðu áður verið sakfelldir fyrir valdníðslu og þá beitti forsetinn neitunarvaldi gegn frumvarpi stjórnarinnar sem fól í sér aukið fjármagn til ríkisfjölmiðla.