Ómar og Bjarki markahæstir - Magdeburg vantar þrjú stig

Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Magdeburg steig næsta skref í átt að þýska meistaratitlinum í handknattleik í kvöld þegar liðið vann yfirburðasigur á botnliðinu N-Lübbecke, 38:20, í 1. deildinni á heimavelli sínum.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Magdeburg með átta mörk og það síðasta var hans 200. mark í deildinni á tímabilinu en þar er hann þriðji markahæstur. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og þeir áttu sínar tvær stoðsendingarnar hvor.

Magdeburg er komið með 56 stig á toppnum en Kiel og Füchse Berlín eru með 48 stig. Kiel á leik til góða en getur aðeins náð 58 stigum þannig að Magdeburg nægir að fá þrjú stig úr síðustu fjórum leikjum sínum til að verða þýskur meistari.

Bjarki Már Elísson var að vanda markahæstur hjá Lemgo þegar liðið vann góðan útisigur á  Melsungen, 23:18. Hann skoraði sex mörk og hefur þá skorað 210 mörk í deildinni í vetur. Arnar Freyr Arnarsson og Alexander Petersson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Melsungen en Elvar Örn Jónsson er úr leik vegna meiðsla. Lemgo lyfti sér upp í sjöunda sæti með sigrinum en Melsungen er í tíunda sætinu.

Janus Daði Smárason skoraði fimm mörk fyrir Göppingen og átti þrjár stoðsendingar þegar lið hans tapaði fyrir Füchse Berlín á útivelli, 37:31. Göppingen er áfram í fimmta sæti, sem er Evrópusæti, en er aðeins stigi á undan Lemgo sem er í sjöunda sætinu. Hinn íslenskættaði Hans Óttar Lindberg skoraði tíu mörk úr tíu skotum fyrir Füchse og hann komst þar með uppfyrir Bjarka Má og er markahæstur í deildinni með 213 mörk. 

Oddur Gretarsson lék loksins með Balingen eftir langa fjarveru vegna meiðsla en hann skoraði tvö mörk og Daníel Þór Ingason eitt þegar lið þeirra tapaði 24:28 fyrir Wetzlar á heimavelli. Þar með datt Balingen niður í fallsæti, það næstneðsta, og er nú stigi á eftir Minden þegar bæði lið eiga þrjá leiki eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert