Enski boltinn

Fulham heldur sigurgöngu sinni áfram og Luton með mikilvægan sigur

Ísak Hallmundarson skrifar
Leikmenn Fulham fagna marki Mitrovic í dag.
Leikmenn Fulham fagna marki Mitrovic í dag. getty/Andrew Redington

Fulham vann sinn fjórða leik í röð í ensku Championship-deildinni, næstefstu deild Englands, í kvöld þegar liðið sigraði Cardiff 2-0. Luton vann þá mikilvægan sigur á Huddersfield í fallslag í dag.

Aleksandar Mitrovic, sem er eins og stendur markahæsti leikmaður deildarinnar, kom Fulham í forystu gegn Cardiff úr vítaspyrnu á 35. mínútu. Josh Onomah skoraði síðan annað mark Fulham á 66. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki, Fulham er með sigrinum með 76 stig í þriðja sæti deildarinnar og setur þannig pressu á West Brom og Leeds sem eru í efstu tveimur sætunum. West Brom er með 80 stig og Leeds 81 stig, en bæði lið eiga leik til góða á Fulham og eiga eftir að spila fjóra leiki á tímabilinu.

Luton vann Huddersfield 2-0 á útivelli í botnbaráttuslag í dag. Eftir sigurinn er Luton með 44 stig í næstneðsta sæti, tveimur stigum frá öruggu sæti, en Huddersfield er með 47 stig í 19. sæti, tveimur stigum ofar en fallsæti. Bæði lið eiga eftir að leika þrjá leiki í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×