Fótbolti

Leicester hoppaði úr neðsta sæti og upp í það efsta

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leicester nægir jafntefli í lokaumferð C-riðils eftir úrslit kvöldsins.
Leicester nægir jafntefli í lokaumferð C-riðils eftir úrslit kvöldsins. Naomi Baker/Getty Images

Nú er öllum 15 leikjum kvöldsins í næst seinustu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar lokið. Enska liðið Leicester stökk úr fjórða og neðsta sæti C-riðils með 3-1 sigri gegn Legia frá Varsjá.

Patson Daka kom heimamönnum í Leicester yfir strax á 11. mínútu áður en James Maddison bætti öðru marki Leicester við tíu mínútum síðar eftir stoðsendingu frá Ademola Lookman.

Filip Mladenovic minnkaði muninn fyrir gestina á 27. mínútu þegar hann var fyrstur til að átta sig og tók frákastið eftir að Kasper Schmeichel hafði varið vítaspyrnu frá Mahir Emreli.

Wilfred Ndidi kom heimamönnum svo aftur í tveggja marka forystu rúmum tíu mínútum fyrir hálfleik, og staðan var því 3-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Seinni hálfleikurinn var nokkuð rólegri en sá fyrri. Heimamenn virtust þó líklegri aðilinn til að bæta við, en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan varð því 3-1 sigur Leicester.

C-riðillinn er því galopinn fyrir lokaumferðina, en Leicester situr nú á toppnum með átta stig, tveimur stigum meira en Legia sem situr nú í fjórða og neðsta sæti. Napoli og Spartak Moskva eru í öðru og þriðja sæti með sitthvor sjö stigin, en í lokaumferðinni mætast Napoli og Leicester annars vegar og Legia Varsjá og Spartak Moskva hins vegar.

Úrslit kvöldsins

A-riðill

Bröndby 1-3 Lyon

Rangers 2-0 Sparta Prague

B-riðill

Monaco 2-1 Real Sociedad

PSV Eindhoven 2-0 Sturm Graz

C-riðill

Leicester 3-1 Legia Varsjá

D-riðill

Eintracht Frankfurt 2-2 Royal Antwerp

Olympiacos 1-0 Fenerbache


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×