Tekur ekki við Tottenham

Arne Slot með skjöldinn sem Hollandsmeisturum hlotnast.
Arne Slot með skjöldinn sem Hollandsmeisturum hlotnast. AFP/Maurice van Steen

Arne Slot, knattspyrnustjóri Hollandsmeistara Feyenoord, hefur útilokað að hann taki við stjórnartaumunum hjá enska félaginu Tottenham Hotspur.

Undir stjórn Slot hefur Feyenoord aðeins tapað einum deildarleik á tímabilinu og tryggði sér hollenska meistaratitilinn með sigri á Willum Þór Willumssyni og félögum í Go Ahead Eagles þann 14. maí síðastliðinn.

„Mér hafa borist til eyrna fjöldi orðróma um áhuga á mér annars staðar frá. Þó ég sé vissulega þakklátur fyrir það er það ósk mín að vera áfram hjá Feyenoord og halda áfram að vinna við það sem við skópum á undanförnu ári.

Við höfum ekkert rætt kaup og fundurinn [með stjórn Feyenoord] í gær sneri einungis að viðræðum um framlengingu á samningi mínum. Allar viðræður mínar við félagið hafa einungis snúið að því. Ég hlakka til næsta tímabils með Feyenoord,“ sagði Slot á blaðamannafundi í gær.

Sky Sports greinir frá því að Tottenham hafi ákveðið að hætta við að reyna við Slot vegna skorts á vilja til að greiða klásúlu í samningi hans við Feyenoord til þess að losa hann þaðan.

Þar segir einnig að Tottenham hafi ávallt haldið því fram að félagið hafi aldrei rætt beint við Slot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert