Kórónuveirusmit í EM-hópi Svía

Dejan Kulusevski er kominn í einangrun.
Dejan Kulusevski er kominn í einangrun. AFP

Dejan Kulusevski, leikmaður Juventus á Ítalíu og sænska landsliðsins í knattspyrnu, er kominn í einangrun eftir að hafa greinst með kórónuveiruna en hann er í hópi Svía sem búa sig undir EM.

Sænska knattspyrnusambandið staðfesti þetta fyrir stundu en fréttamannafundi sem halda átti eftir æfingu liðsins í Gautaborg í dag var flýtt og hann hófst núna klukkan 14.

Á fundinum sagði Janne Andersson landsliðsþjálfari að þetta væri leiðindamál, leiðinlegt fyrir Dejan og allan hópinn. Hann kvaðst samt viss um að læknar liðsins myndu höndla málið vel.

Svíar eiga að mæta Spánverjum í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni EM á mánudaginn kemur. Kulusevski verður ekki með þar en Andersson sagði að ekki yrði kallaður leikmaður inn í hópinn í hans stað að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert