Fæðingar ekki fleiri síðan 2010

Breiðholtið í Reykjavík.
Breiðholtið í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Í lok annars ársfjórðungs þessa árs bjuggu 371.580 manns á Íslandi; 190.480 karlar og 181.100 konur. Landsmönnum fjölgaði um 1.700 á ársfjórðungnum. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 238.170 manns en 133.410 utan þess. 

Á öðrum ársfjórðungi þessa árs fæddust 1.270 börn, en 570 einstaklingar létust. Hafa fæðingar á öðrum ársfjórðungi ekki verið fleiri frá 2010. Á sama tíma fluttust 950 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 350 umfram brottflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 610 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.

Samkvæmt Hagstofunni var Svíþjóð helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara, en þangað fluttu 60 manns á öðrum ársfjórðungi. Af þeim 1.250 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 450 manns í heildina. 

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð, alls 460 af 630 manns. Pólland var upprunaland flestra erlenda ríkisborgara, en þaðan fluttust 430 til landsins af alls 1.860 erlendum innflytjendum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert