Óþarflega mikið vesen

Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks.
Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst þetta óþarflega mikið vesen og ég hefði viljað að við gerðum út um leikinn miklu fyrr og í raun er það bara Telma markmaður sem bjargar okkur með glæsilegri markvörslu því í kjölfarið náum við að gera út um leikinn, sem var mikill léttir,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks eftir 3:0 sigur á Tindastól í dag á Kópavogsvellinum þegar leikið var í 2. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.

Fyrirliðinn var ánægður en samt ekki alveg.  „Fram að öðru markinu okkar fannst mér við vera með leikinn en voru ekki alveg nógu beittar síðasta spölinn, frekar að gefa markmanni þeirra nokkra æfingabolta svo það var gott að loka leiknum nokkuð sannfærandi.“  

„Okkur munar um hvert stig því ef þú ætlar að vinna deildina verður þú að vinna langflesta leikina en mér finnst við ekki hafa verið alveg uppá okkar besta í síðustu tveimur leikjum okkar, samt gott og jákvætt að við vinnum leikina sannfærandi, fáum ekki mikið af mörkum á okkur.  Við erum því sátt en getum gert betur,“ bætti fyrirliðinn við.

Tókum oft rangar ákvarðanir

Nik Chamberlain þjálfari Blika hefði svipaða sögu að segja. „Mér fannst þetta fínt hjá okkur, stjórnuðum leikinn að mestum parti og komust oft inní teig hjá Tindastól en tókum þá oft rangar ákvarðanir.  Það fylgir samt því það verður að taka áhættuna og reyna að nota tækifærin,“ sagði þjálfarinn eftir leikinn.

Í stöðunni 1:0 fyrir Blika fékk Tindastóll mjög gott færi á 83. mínútu en Telma Ívarsdóttir náði að verja með glæsibrag, sem þjálfarinn segir að hafi skipt sköpum.  „Við hefðum getað misst leikinn í eitt-eitt en Telma varði glæsilega og við fórum í sókn og komumst í tvö-núll forystu svo að leikurinn var eiginlega búinn.  Eitthvað svona eins og fótboltinn með hæðum og lægðum.“  

„Það var mikilvægt fyrir okkur að ná þremur stigum, sérstaklega á heimavelli auk þess að við höldum markinu hreinu og skorum þrjú mörk en þetta hefði mátt vera auðveldara, ef við hefðum nýtt færin okkar,“ bætti Nik við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert