„Erum með tvo góða leikmenn í öllum stöðum“

Darri Aronsson í baráttunni í leiknum í kvöld.
Darri Aronsson í baráttunni í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Þetta var iðnaðarsigur mætti segja. Rosalega sterk vörn og góð markvarsla skilaði þessu og við náðum svo að setja nokkur góð mörk líka. Þetta var mjög erfiður leikur,“ sagði Darri Aronsson, vinstri skytta Hauka, í samtali við mbl.is eftir 28:23 sigur í fyrri leik liðsins gegn Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í Garðabænum í kvöld.

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur og byrjuðu deildarmeistarar Hauka báða hálfleika illa. Spurður um af hverju það stafaði sagði Darri:

„Stjarnan er auðvitað hörkulið með hörkumannskap, þeir eru með Björgvin Hólmgeirs, sem er frábær leikmaður, og Tandra Má [Konráðsson], alls konar góða leikmenn.

Það er auðvitað erfitt að eiga við Stjörnuna. Það er líka hægt að segja að þeir hafi verið góðir, byrjað vel. Svo náðum við að koma okkur aftur inn í leikinn og halda okkar dampi.“

Markaskorun dreifðist vel á milli leikmanna, sem hefur verið eitt af einkennismerkjum Hauka á tímabilinu, bæði í deildinni og í úrslitakeppninni.

„Bara eins og er búið að vera allt tímabilið, frábær liðsheild. Við erum með tvo góða leikmenn í öllum stöðum,“ sagði hann. Darri var markahæstur í Haukaliðinu í kvöld ásamt Geir Guðmundssyni; báðir skoruðu þeir fjögur mörk.

Liðin mætast í öðrum leik næstkomandi föstudagskvöld og býst Darri við hörkuleik. „Eins og ég segi þá er Stjarnan hörkulið. Þetta verður hörkuleikur. Þeir mæta bara með bakið upp við vegg og ætla að gefa sig alla í leikinn.

Þeir ætla ekki í sumarfrí þannig að við þurfum að mæta alveg jafn tilbúnir og þeir, mæta af krafti og til að vinna þann leik. Það þýðir ekkert annað,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert