Sjónvarpsstöð biðst afsökunar

Mikael Anderson og félagar í Midtjylland komust á topp dönsku …
Mikael Anderson og félagar í Midtjylland komust á topp dönsku úrvalsdeildinnar í gær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Danska sjónvarpsstöðin TV3 Sport hefur beðist afsökunar á að hafa strítt knattspyrnuliði Brøndby með því að hafa ekki orðið danskur meistari í sextán ár.

Midtjylland og Brøndby mættust í stórleik dönsku úrvalsdeildarinnar í karlaflokki í gær þar sem ríkjandi meistarar Midtjylland, með Mikael Anderson innanborðs, sigruðu topplið Brøndby, með Hjört Hermannsson innanborðs, 1:0.

Þar með komst Midtjylland í efsta sæti deildarinnar með 46 stig gegn 45 hjá Brøndby þegar níu umferðum er ólokið.

Midtjylland var með danska meistarabikarinn á áberandi stað í inngangi vallarins fyrir leikinn og í útsendingu TV3 Sport mátti sjá sett yfir bikarinn með rauðu letri að Brøndby hefði ekki unnið hann síðan árið 2005.

Flestir héldu að með þessu væri Midtjylland að espa upp andstæðinga sína í Brøndby en forráðamenn heimaliðsins báru þær sakir algjörlega til baka. Það var hins vegar starfsmaður TV3 Sport sem átti „heiðurinn“ af uppátækinu.

„Það var skemmtileg brella hjá Midtjylland að bjóða Brøndby velkomið til leiks með bikarinn í forgrunni, og við nýttum okkur það að sjálfsögðu í okkar útsendingu. En það er að sjálfsögðu ekki í lagi þegar TV3 Sport er ábyrgt fyrir því að ganga lengra í gríninu. TV3 Sport ber ábyrgð á þessu og á því biðjumst við afsökunar,“ segir á heimasíðu stöðvarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert