Stöku sinnum verða stökk í tækni sem leiða af sér byltingu fyrir samfélagið. Margt bendir til þess að slík bylting sé framundan með tilkomu dreifiskráarinnar (e. distributed ledger) og rafmynta (e. cryptocurrencies).

Skrár sem halda utan um greiðslur, bókhald, samninga, skírteini, staðfestingar á eignarhaldi o.fl. hafa verið undirstaða viðskiptalífsins um aldir. Tækniþróun á borð við pappírinn, tölvuna og internetið hafa umbylt utanumhaldi þeirra. Enn í dag eru skrárnar miðlægar, þ.e. einn aðili (t.d. banki, sýslumaður eða tryggingafélag) heldur utan um þær, ritar og er ábyrgur fyrir uppfærslu þeirra. Þetta felur í sér villu- og sviksemishættu og eru mikilvægar skrár því yfirfarnar af lögfræðingum, sýslumönnum, eftirlitsaðilum, endurskoðendum og fjölda annarra sérfræðinga.

Í stað miðlægra skráa, er hægt að viðhafa dreifða skrá, dreifiskrá, sem allir hlutaðeigandi aðilar hafa afrit af. Dreifiskrár byggja á „dreifitækni“ (e. distributed ledger technology), sem gerir aðilum viðskipta kleift að uppfæra dreifiskrána án aðkomu annarra. Aðilar með aðgang að skránum geta fylgst með réttleika þeirra. Viðskiptaaðilar geta þannig fært peninga og aðrar eignir sín á milli án aðkomu þriðja aðila. Þannig er unnt að sleppa milliliðum á borð við banka, tryggingafélögum, lögfræðingum og innri og ytri eftirlitsaðilum. Þá er mögulegt að forrita skrárnar og auka þannig sjálfvirkni í viðskiptum. Með þessu skapast mikill sparnaður og skilvirkni. Hætta á villum og svikum verður óveruleg.

Rekjanleiki og mótaðilaáhætta

Fyrsta útbreidda dreifiskrá heimsins kom fram með fyrstu rafmynt heimsins, Bitcoin, árið 2008. Utanumhald Bitcoin er með bálkakeðju (e. blockchain)-dreifitækni og þar er réttleiki greiðslna staðfestur með svokölluðum greftri (e. mining). Fjölmargar rafmyntir hafa komið fram á sjónarsviðið síðan þá, og byggja þær nánast allar á bálkakeðju-dreifitækninni. Auk framangreindra þátta hafa rafmyntir þá kosti umfram hefðbundna gjaldmiðla að færslur eru auðrekjanlegri, þær bera enga mótaðilaáhættu (e. credit risk) og greiðslumiðlun með þeim er hraðari en greiðslukerfi flestra þjóða og alþjóðleg greiðslukerfi.

En bálkakeðju-tæknin hefur takmarkanir, t.a.m. í formi takmarkaðrar bandvíddar (færslufjölda) og hversu mikillar raforku utanumhald hennar krefst með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Hugsanlega mun ný dreifitækni sem ekki hefur þessa vankanta leysa bálkakeðjuna af hólmi í framtíðinni. Árið 2019 kom til að mynda fram ný tækni, hashgraph, sem ekki notast við gröft, heldur blaður (e. gossip) og hefur alla eiginleika bálkakeðju. Hashgraph-dreifitæknin krefst hverfandi orkunotkunar og fyrsta hashgraph-rafmyntin, Hedera, ræður við 10.000 færslur á sekúndu, samanborið við 5-7 í fyrstu útgáfu Bitcoin.

Tæknin spyr ekki um landamæri

Samfélagið hefur ekki farið varhluta af áhrifum dreifiskráa og rafmynta. Svarti markaðurinn tók rafmyntum opnum örmum m.a. vegna nafnleyndar. Þá hafa fjárfestar sýnt þeim aukinn áhuga, margir hagnast verulega og aðrir tapað (með verðsveiflum og glötuðum hörðum diskum eða lykilorðum). Eðlilega hafa stjórnvöld og eftirlitsaðilar fylgst vel með og brugðist við með setningu reglna og endurmetið stöðugt hversu opin þau vilja vera gagnvart tilkomu þessarar nýju tækni. En til lengri tíma spyr tækni ekki um stefnu, landamæri eða lög. Dreifiskrár og rafmyntir hafa þegar sýnt notagildi sitt í utanumhaldi fasteignaskráa, við utanumhald aðfanga í framleiðslu, uppgjöri færslna á millibankamörkuðum, o.fl. Með framþróun dreifitækni og aukinni vitund um notagildi hennar er ljóst að þær verði innleiddar með mun víðtækari hætti í framtíðinni. Það getur reynst lykilatriði fyrir fyrirtæki og stofnanir að vera meðvitaðar um notagildi þeirra og tímasetja innleiðingu þeirra vel.