Fyrstu bólusettu farþegarnir utan Schengen

Fyrstu bólusettu ferðamennirnir í „ónauðsynlegum“ ferðum komu til landsins í …
Fyrstu bólusettu ferðamennirnir í „ónauðsynlegum“ ferðum komu til landsins í dag. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Á miðnætti tóku gildi nýjar reglur um komur farþega til landsins utan Schengen. Mega nú allir, sem hafa lokið bólusetningu koma til landsins, hvaðan úr heiminum sem er. 

Fyrstu farþegarnir með bólusetningarvottorð komu frá Frankfurt í morgun og höfðu millilent þar frá löndum utan Schengen. Síðar í dag er von á vél frá Boston. 

Reglugerðin átti að taka gildi 26. mars, en var síðar frestað til dagsins í dag, 6. apríl.

Rúmt ár er síðan bann var lagt við komum ferðamanna frá löndum utan Schengen-samstarfsins, eða annarra ESB-ríkja, þótt undanþágur hafi um tíma verið í gildi fyrir örfá lönd. Hefur frá þeim tíma einungis verið tekið á móti fólki í „brýnum erindagjörðum“ en undir það fellur til dæmis fólk sem býr á Íslandi eða ættingjar þess. Þá hafa íslenskir ríkisborgarar alltaf getað komið til landsins.

Í samtali við mbl.is segir Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, að framkvæmdin hafi gengið vel hingað til. Hann segir aðspurður að nokkur áskorun sé að taka á móti og sannreyna bólusetningarvottorð frá ólíkum ríkjum, en landamæraverðir séu vanir því enda hafi verið tekið við vottorðum frá Evrópu í nokkurn tíma. Hann hefur þó ekki tölu á fjölda þeirra sem komið hafa til landsins frá svæðum utan Schengen með slík vottorð það sem af er degi.

Fólki sem kemur til landsins er eftir sem áður bent á sóttkvíarhótel þótt ekki sé skylda að verja sóttkví þar, eftir úrskurð héraðsdóms í gær. „Við bjóðum fólki þennan valkost, en ef það leikur grunur á að fólk hafi engin önnur úrræði þá munum við senda það á sóttkvíarhótelið,“ segir Sigurgeir. Það gildir þá fyrst og fremst um erlenda ferðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert