Góður endasprettur tryggði 3:0 sigur Blikakvenna á Tindastóli

Gwendolyn Mummert og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir eigast við á Kópavogsvellinum …
Gwendolyn Mummert og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir eigast við á Kópavogsvellinum í dag. Vigdís kom Blikum yfir á 16. mínútu. mbl.is/Óttar

Ágætis mótspyrna Tindastólskvenna dugði ekki til þegar þær mættu Blikum í Kópavoginum í dag og leikið var í 2. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu.  Breiðablik vann 3:0, hafði vissulega undirtökin að mestu og sótti stíft en Tindastóll fékk sín færi.  

Gestirnir frá Sauðárkróki byrjuðu með látum, sem virtist koma Blikum á óvart enda fékk Tindastóll fyrsta hornið í leiknum.  Eftir rúmar tíu mínútur fóru þó Blikakonur að ná undirtökunum, sóknir þyngdust. 

Á 16. mínútu tók Heiða Ragney Viðarsdóttir aukaspyrnu um 5 metrum beint fyrir utan vítateig gestanna, boltinn stefndi upp í vinstra hornið en Monica Vilhelm markvörður varði glæsilega í horn.

Úr þessu horni á 17. mínútu brutu Blikar ísinn, hornspyrnan Öglu Maríu Albergsdóttir kom frá vinstri og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir var mætt við stöngina nær til að skjóta upp í þaknetið af stuttu færi.  Vel útfært og staðan 1:0.

Hvort lið átti svo skot á markið án þess þó að hætta væri á ferðum en sóknir Blika voru þó þyngri og fleiri en næsta mark lét bíða eftir sér.

Á 35. mínútu kom svo gott færi Tindastóls þegar Jordyn Rhodes fékk sendingu inná markteig og skallaði að markinu en Telma markvörður Blika var snögg til hliðar.

Þrátt fyrir meiri sóknarþunga Blika var næsta góða færi Tindastóls en þrumuskot Jordyn á 44. mínútu utan teigs fór metra fyrir ofan slánna.

Síðari hálfleikurinn var að mestu í eigu Breiðabliks.  Sóknir þungar og oft vel útfærðar en gestirnir frá Sauðárkrók voru fastar fyrir í vörninni og við öllu búnar.    Fyrir vikið var ekki mikið um góð færi framan af, helst á 60. mínútu þegar boltinn dansaði við marklínu gestanna, sem tókst loks að bjarga í horn.

Undir lok færðist svo fjör í leikinn.   Fyrst gerði vörn Breiðabliks mistök svo Hugrún Pálsdóttir slapp ein í gegn á 83. mínútu, ætlaði svo að leika á Telmu í markinu en það tókst ekki.

Blikar fóru strax í sókn og Andrea Rut Bjarnadóttir fékk boltann rétt utan vítateigs vinstra megin, lék á varnarmann og skaut svo glæsilega upp í hægra hornið, sem skilaði Blikum í 2:0 forystu á 83. mínútu.

Blikar voru ekki hættir, jafnvel fundið að mótspyrna Tindastóls var aðeins minni, og Agla María Albertsdóttir skaust upp vinstri kantinn, slapp inn nálægt markteigshorninu þaðan sem hún þrumaði niður í hægra hornið.  3:0.

Næstu leikir liðanna í deildinni eru föstudaginn 3. maí þar sem Blikar fá FH í heimsókn í Kópavoginn og Tindastóll fer í Garðabæinn til að mæta Stjörnukonum.

Breiðablik 3:0 Tindastóll opna loka
90. mín. Tilkynnt að uppbótartími sé 9 mínútur. Það hefur verið aðeins um smá meiðsli en núna rétt áðan skullu nokkrir leikmenn saman og verið að hlúa að þeim.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert