„Við gerbreytum ekki okkar leik“

Arnar Freyr hitar upp fyrir leikinn gegn Dönum.
Arnar Freyr hitar upp fyrir leikinn gegn Dönum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Já já ég held að menn hafi gert það. Menn gerðu það í gærkvöldi og svo er nýr dagur í dag og á morgun er annar leikur,“ sagði línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson þegar mbl.is ræddi við hann fyrir landsliðsæfingu í dag og spurði hvort menn væru búnir að jafna sig eftir leikinn gegn Dönum. 

Margt jákvætt var að finna í frammistöðu íslenska liðsins gegn Dönum er mið er tekið af aðstæðum en liðið fékk lítinn tíma til að bregðast við því að missa sex leikmenn í einangrun. 

„Ég er sammála því. Innkoman var flott hjá öllum. Þetta er liðsíþrótt og það kemur maður í manns stað. Mér fannst menn sýna hvað þeir gátu í gær. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum þá ætluðum við að vinna Dani. Það tókst ekki en við sýndum gott hugarfar. Ef við hefðum leikið aðeins betur í fyrri hálfleik þá hefðum við getað unnið.“

Arnar Freyr Arnarsson reynir að brjótast í gegnum vörn Dana.
Arnar Freyr Arnarsson reynir að brjótast í gegnum vörn Dana. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Fyrst liðið spilaði jafnan leik gegn Dönum getur það þá einnig spilað jafnan leik gegn Frökkum á morgun? 

„Ef við spilum eins og við gerðum í gær og aðeins betur þá eru allir möguleikar í stöðunni. Það er bara þannig. Frakkarnir eru með meiri skyttur en Danir og ættu því að geta skotið meira fyrir utan. Við þurfum að bregðast við því en að öðru leyti er leikáætlunin sú sama. Áherslurbreytingarnar eru ekki miklar en þó einhverjar. Við gerbreytum ekki okkar leik heldur reynum að spila eins og við höfum gert að stærstu leyti. Reynum að halda í íslensku geðveikina,“ sagði Arnar Freyr og glotti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert