Skaut Spánverjum í undanúrslit

Álvaro Morata reynir skalla að marki Portúgala.
Álvaro Morata reynir skalla að marki Portúgala. AFP/Patricia De Melo

Álvaro Morata reyndist hetja Spánar þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu með dramatískum sigri gegn Portúgal í 2. riðli keppninnar í Braga í Portúgal í kvöld.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Spánverja en Morata skoraði sigurmark leiksins á 88. mínútu og enduðu Spánverjar með 11 stig í efsta sætinu en Portúgalar í því öðru með 10 stig.

Það verða því Spánn, Króatía, Ítalía og Holland sem mætast í undanúrslitum keppninnar næsta sumar.

Þá er Tékkland fallið í B-deildina eftir 1:2-tap gegn Sviss í St. Gallen þar sem Remo Freuler og Breel Embolo skoruðu mörk Sviss en Patrick Schick minnkaði muninn fyrir Tékka undir lok fyrri hálfleiks. Sviss lýkur keppni í þriðja sæti riðilsins með 9 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert