Ólafur og Steingrímur sigurvegarar helgarinnar

Frá torfærukeppni helgarinnar.
Frá torfærukeppni helgarinnar. Ljósmynd/Dóri Bjöss

Sindratorfæran fór fram á Hellu um helgina en átján keppendur hófu leik í tveimur flokkum. Keppnin var æsispennandi og strax í fyrstu braut voru það þeir Ólafur Bragi Jónsson á Refnum, Snorri Þór Árnason á Kórdrengnum og Skúli Kristjánsson á Simba sem tóku forustu í sérútbúna flokknum.

Snorri leiddi framanaf og sló meðal annars heimsmet í hraða á vatni þegar hann sigldi kórdrengnum í 103 kílómetra hraða á ánni. Hann náði svo ekki að klára mýrina og þá skaust Ólafur Bragi á toppinn og Skúli fylgdi fast á eftir.

Ólafur Bragi var vel að sigrinum komin eftir frábæran akstur allan daginn með 1680 stig. Skúli ríkjandi heimsmeistari fylgdi fast á eftir með 1599 og Snorri Þór með 1550. Í næstu sætum á eftir voru það þeir Guðmundur Elíasson á Ótemjunni, Ásmundur Ingjaldsson á Bombunni og Sigurður ingi Sigurðsson á JIBBIIIII.

Ingvar Jóhannesson á Víkingnum hlaut tilþrifaverðlaun í þessum flokk eftir glæsileg tilþrif í 3 braut þar sem hann snéri sér í nokkra hringi og endaði á hjólunum.

Ljósmynd/Dóri Bjöss

Íslandsmeistarinn öflugur

Í götubílaflokknum var það Steingrímur Bjarnason, ríkjandi Íslandsmeistari, á Strumpnum sem byrjaði titilvörnina vel og nældi sér í flest stig eftir daginn, kláraði ánna með miklum sóma og mýrina í fyrsta skipti á ævinni, sem væri ekki sögulegt nema fyrir það að vera að búinn að keppa á Hellu á annan tug skipta.

Það má því segja að hann hafi komið sá og sigrað, hreppti 1. sæti í sínum flokk, hlaut Helluna farandbikar keppninnar fyrir flest stig eftir daginn og tilþrifaverðlaun. Í öðru sæti var Páll Pálsson en hann er að koma aftur eftir ellefu ára hlé.

Í þriðja sæti var það Haukur Birgisson á Þeytingi hann lenti í slæmri veltu í annar braut og datt því úr keppni en hreppti samt sem áður 3. sætið því Óskar Jónsson lenti í slæmri bilun í fyrstu braut sem hann náði ekki að komast yfir.

Þetta var í 45. skiptið sem Flugbjörgunarsveitin á Hellu stendur fyrir torfæru á Hellu og í fyrsta skipti sem áhorfendur geta einungis setið heima í stofu til þess að fylgjast með. Mikil áskorun fyrir sveitina sem þóttist taka afar vel. 

Ljósmynd/Dóri Bjöss
Ljósmynd/Dóri Bjöss
Ljósmynd/Dóri Bjöss
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert