Valur auðveldlega í úrslit

Amanda Andradóttir skoraði tvívegis fyrir Val í kvöld.
Amanda Andradóttir skoraði tvívegis fyrir Val í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur vann auðveldan sigur á Stjörnunni, 4:0, þegar liðin áttust við í undanúrslitum deildabikars kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.

Valur mætir þar með Breiðabliki í úrslitaleik deildabikarsins á laugardaginn.

Amanda Andradóttir kom Val á bragðið eftir rúmlega hálftíma leik með stórglæsilegu skoti hægra megin fyrir utan vítateig sem hafnaði niðri í bláhorninu fjær.

Hailey Whitaker tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir leikhlé þegar hún skoraði af stuttu færi eftir góðan undirbúning Fanndísar Friðriksdóttur.

Þegar um stundarfjórðungur lifði leiks skoraði Amanda annað mark sitt og þriðja mark Vals þegar hún stýrði góðri fyrirgjöf varamannsins Ragnheiðar Þórunnar Jónsdóttur af vinstri kanti með laglegu, viðstöðulausu skoti á lofti í netið af stuttu færi.

Skömmu síðar skoraði varamaðurinn Helena Ósk Hálfdánardóttir með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf annars varamanns, Önnu Rakelar Pétursdóttir, af vinstri kanti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert