Meistaramót Íslands um helgina - Flest þau bestu með

Tiana Ósk Whitworth tekur þátt á Meistaramótinu um helgina.
Tiana Ósk Whitworth tekur þátt á Meistaramótinu um helgina. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Meistaramót Íslands fer fram í Kaplakrika um helgina, 25. - 26. júní. Þar kemur fremsta frjálsíþróttafólk Íslands sér saman og mun keppa um 34 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum. 

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH og Tíana Ósk Whitworth úr ÍR keppa bæði í 100 og 200 metra hlaupi um helgina. Kolbeinn hljóp á glæsilegum tíma á Smáþjóðameistaramótinu á Möltu í 100 metra hlaupi, 10,59 sek sem er aðeins einu sekúndubroti frá hans besta. Hann vantar sjö sekúndubrot í Íslandsmetið. Besta hlaup Tiönu Ósk er 11,57 sem er aðeins sekúndubroti frá Íslandsmeti Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur. Guðbjörg mun hinsvegar ekki taka þátt á mótinu þar sem hún er meidd. 

Undanúrslit 100 m hlaupi karla er á laugardaginn kl 12 og úrslitin eru sama dag klukkan 15:20

Undanúrslit í 100 m hlaupi kvenna er á laugardaginn kl 12:50 og úrslitin sama dag kl 15:30

Undanúrslit í 200 m hlaupi karla er á sunnudaginn kl 11. Úrslitin eru sama dag klukkan 15:50.

Undanúrslit í 200 m hlaupi kvenna er á sunnudaginn kl 12. Úrslitin eru sama dag kl 16.

Það verður blönduð keppni í sleggjukasti í ár. Konur og karlar munu kasta á sama tíma og keppnin byrjar klukkan 13 á laugardag. Elísabet Rún Rúnarsdóttir úr ÍR verður meðal keppenda í sleggjukastinu, en hún bætti eigið Íslandsmet í byrjun júní þar sem hún kastaði 65,73 metra. Íslandsmethafinn í sleggjukasti karla, Hilmar Örn Jónsson úr FH mun einnig keppa á mótinu. 

Guðni Valur Guðnason kastar kringlu á laugardag klukkan 14. Hann mun freistast þess að bæta met sitt sem er 69,35 metrar. 

Baldvin Þór Magnússon úr UFA mun keppa í 1.500 metra hlaupi kl 15:40 á laugardag. Hann mætir beint frá Bandaríkjunum. Baldvin á Íslandsmetið í sinni grein sem er 3:40 mínútur. 

Í spjótkasti er Dagbjartur Daði Jónsson úr ÍR er einnig skráður til leiks. Spjótkastið hefst kl 16:20. Dagbjartur er búinn að eiga flott tímabil í Bandaríkjunum í vor og varð svæðismeistari SEC og sjöundi á bandaríska háskólameistaramótinu. 

Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR tekur þátt í kúluvarpi. Hún er búin að kasta vel í ár og bætti Íslandsmetið utanhúss í mars með kast upp á 17,29 metra. Keppnin hennar hefst klukkan 14 á sunnudag. 

Hlynur Andrésson verður á meðal keppenda í 5.000 metra hlaupi.  Þetta verður fyrsta 5.000 metra hlaupið hans í ár en hann á best 13:41,06 mín. Hlynur er eini Íslendingurinn sem er kominn með lágmark á EM í München sem fer fram í ágúst en hann náði lágmarki í maraþoni í Dresden á síðasta ári. 5.000 metra hlaupið hefst klukkan 14:40 á sunnudag.

Kristján Viggó Sigfinnsson úr Ármanni verður meðal keppenda í hástökki á laugardaginn klukkan 14. Hann er með annað hæsta stökkið í heiminum í U20 ára flokki innanhúss í vetur með stökk sitt uppá 2,20.

Aníta Hinriksdóttir úr FH mun taka þátt í bæði 800 og 1.500 metra hlaupi. Aníta var búin að hlaupa á 2:05,20 mín. innanhúss í vetur í 800 metra hlaupi og hljóp 1.500 metra hlaup á MÍ innanhúss á tímanum 4:41,45 mín. 1.500 metra hlaupið hefst klukkan 15:15 á laugardag og 800 metra hlaupið hefst klukkan 15:35 á sunnudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert