Kínversk stjórnvöld hafa beðið sveitarstjórnir og stofnanir þar í landi að búa sig undir það að byggingarisinn Evergrande muni falla. Þetta hefur Wall Street Journal eftir heimildamönnum. Þykir það benda til þess að ólíklegt sé að ríkið muni koma félaginu til bjargar.

Samkvæmt upplýsingum miðilsins hafa stjórnvöld fengið þau skilaboð að „búa sig undir mögulegt óveður“. Aðeins eigi að grípa inn í til þrautavara ef allar aðrar leiðir reynast ómögulegar. Verkefni stjórnvalda muni fyrst og fremst lúta að því að lágmarka þann skaða sem gæti hlotist af falli félagsins.

Möguleg aðgerðaáætlun felst meðal annars í því að koma saman endurskoðendum og lögfræðingum til að kafa ofan í bækur félagsins í hverju héraði fyrir sig. Einnig að finna verktaka sem gætu haldið verkum áfram og að tryggja öryggi borgara ef óeirðir eða mótmæli brjótast út.

Evergrande er stærsta fasteignafélag landsins og sem stendur er það með um 800 verkefni í framkvæmd í meira en 200 borgum. Fregnir af fjárhagsvandræðum félagsins hafa nú þegar haft áhrif á önnur félög í Kína, byggingageirinn telur rúm sjö prósent af landsframleiðslu Kína, auk þess að smita út frá sér í hagkerfi heimsins.

Félaginu hefur gengið illa undanfarið að greiða verktökum og afhenda íbúðir á réttum tíma. Mestu áhyggjurnar nú lúta að gjalddögum á skuldabréfum sem senn renna upp. Félagið skuldar rúmlega 300 milljarða bandaríkjadala, 88 milljarða í reiðufé og yfir 200 milljarða vegna 1,4 milljón seldum en óafhentum íbúðum, og þarf á næstunni að standa skil á rúmlega 120 milljón dala vaxtagreiðslum. Þegar mest lét var markaðsvirði félagsins 80 milljarðar dollara.