Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,78% í 3,8 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Icelandair sem hækkuðu um 5,83% í milljarðs króna veltu.

Gengi Icelandair stendur nú í 2,07 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í ágúst í fyrra. Gengi bréfa flugfélagsins hefur hækkað um tæp 30% það sem af er ári.

Icelandair birtir uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung og árið 2022 síðar í dag.

Allir bankar á aðalmarkaði hækkuðu í viðskiptum dagsins. Þar á meðal er Íslandsbanki sem fór aftur upp í 117 krónu útboðsgengið. Marel hækkaði um 3% í 476 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 12% frá byrjun árs.

15 félög hækkuðu á aðalmarkaði í dag, en einungis fjögur félög lækkuðu. Þeirra á meðal var Festi, sem lækkaði um 1,16% í 46 milljóna króna viðskiptum. Alvotech, verðmætasta félag Kauphallarinnar, lækkaði um 0,85% í 140 milljóna veltu.

Gengi flugfélagsins Play, sem skráð er á First North markaðnum, hækkaði í dag um 1,5% í 44 milljóna veltu. Þá hækkuðu Amaroq, Kaldalón og Solid Clouds einnig í viðskiptum dagsins.