„Mér fannst við vera með vindinn í seglin“

Kári Kristján Kristjánsson var markahæstur hjá ÍBV með 5/1 mark …
Kári Kristján Kristjánsson var markahæstur hjá ÍBV með 5/1 mark ásamt Elmari Erlingssyni. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta eru vonbrigði. Leiðinlegt að hafa ekki gert alvöru leik úr þessu,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson, línumaður ÍBV, eftir tapið gegn FH í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik í kvöld. 

Eftir að hafa unnið tvo leiki í röð byrjaði ÍBV-liðið illa í Kaplakrika í kvöld og var aldrei yfir í leiknum sem FH vann 34:27 og því 3:2 í undanúrslitarimmunni. 

„Við vorum frekar langt frá pari í leiknum og það má segja um flesta helstu leikmenn liðsins. Það er vont. Við vörðum lítið og gengum ekki vel út í þá í fyrri hálfleik enda fengum við mörg mörk á okkur. Í sókninni vorum við ekki nógu beittir og það vantaði kraft í okkur,“ sagði Kári og segir að þessir þættir hafi verið í mun betra lagi hjá ÍBV í leikjum þrjú og fjögur. 

Aron Pálmarsson var ekki leikfær hjá FH í kvöld eftir að hafa tekið þátt í fyrstu fjórum leikjunum. Hafði fjarvera hans einhver áhrif á leikmenn ÍBV? 

„Já, eflaust enda leikmaður sem gæti spilað með hvaða liði sem er í Evrópu ef honum sýndist svo. Auðvitað hefur það áhrif á leikinn en ég er fyrst og fremst svekktur með okkar frammistöðu. Okkur tókst ekki að skilja allt eftir á vellinum og vorum ekki með kaldan haus í þessum leik.“

Kára fannst ÍBV vera með meðbyr eftir tvo sigurleiki í …
Kára fannst ÍBV vera með meðbyr eftir tvo sigurleiki í röð en það skilaði sér ekki í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eftir sveiflukennda en skemmtilega rimmu var endirinn súr fyrir Eyjamenn. Þeir voru 0:2 undir og flest sund virtust lokuð. En þá unnu þeir í Kaplakrika og einnig næsta leik heima eftir mikla dramatík. Rimman var því mjög sveiflukennd en líklega bjuggust fáir við öðru en spennuleik í oddaleiknum. 

„Já, þetta var sveiflukennt. Við komum til baka í frábærum handboltaleik og jöfnuðum 2:2. Mér fannst við því vera með vindinn í seglin. En við byrjuðum bara alveg skelfilega í þessum leik og við stýrðum leiknum ekki nógu vel, eins og flæðinu og hraðanum,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson í Kaplakrika í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert