Norsku meistararnir of góðir fyrir Val

Daninn Christian Köhler í liði Vals sækir að íslenska landsliðsmanninum …
Daninn Christian Köhler í liði Vals sækir að íslenska landsliðsmanninum Alfons Sampsted hjá Bodö/Glimt. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Vals fengu 0:3-skell fyrir Noregsmeisturum Bodö/Glimt á heimavelli í fyrri leik liðanna í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta. Gestirnir frá Noregi gengu frá Valsmönnum í upphafi seinni hálfleiks.

Valsmenn byrjuðu ágætlega og voru sprækir fyrsta korterið. Með smá heppni hefðu þeir getað skapað sér hættulegt færi, en þeim tókst ekki að reyna á Nikita Haikin í marki Bodö/Glimt.

Eftir því sem leið á hálfleikinn náðu gestirnir völdunum, héldu boltanum vel sín á milli og sköpuðu sér fín færi. Fyrsta markið kom á 40. mínútu og það gerði Ulrik Saltnes. Hann rak þá endahnútinn á góða sókn með afgreiðslu upp í samskeytin. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins.

Seinni hálfleikurinn reyndist Valsmönnum erfiður því gestirnir komust í 2:0 á 52. mínútu þegar Patrick Berg skoraði úr víti eftir að Hannes Þór Halldórsson gerðist brotlegur innan teigs.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Patrick Berg sitt annað mark og þriðja mark Bodö/Glimt er hann slapp inn fyrir vörn Vals eftir sendingu frá Ulrik Saltnes og skoraði með skoti í stöngina, stöngina inn.

Norsku meistararnir voru líklegri til þess að bæta við en Valur að minna muninn það sem eftir lifði leiks, en illa gekk að skapa mjög góð færi. Öruggur sigur norsku meistaranna varð því raunin og á Valur nánast óvinnandi verk fyrir höndum í Noregi.

Alfons Sampsted lék allan leikinn í hægri bakverðinum hjá Bodö/Glimt. 

Lægð yfir Valsmönnum

Það er ákveðin lægð yfir Valsmönnum og Íslandsmeistararnir eru búnir að tapa fjórum leikjum í röð í öllum keppnum. Þótt það þurfi ekki að skammast sín fyrir töp á móti sterkum liðum í Evrópu, hefur frammistaða Vals í sumar ekki verið sérstök. 

Valsmenn léku illa í kvöld og illa á móti ÍA í síðasta deildarleik. Það hefur dugað Valsmönnum ágætlega hingað til í sumar að leika í besta falli þokkalega. Liðið er nægilega vel mannað til að vinna flest liði á Íslandi, án þess að eiga sinn besta leik. Það dugar hinsvegar skammt í erfiðum leikjum í Evrópukeppni. 

Kaj Leo í Bartalsstovu fékk tækifærið í byrjunarliðinu en bauð upp á lítið. Patrick Pedersen fékk varla færi, Guðmundur Andri Tryggvason var slakur og Kristinn Freyr Sigurðsson gerði lítið eftir fyrstu 20 mínúturnar. Þá átti Birkir Heimisson einn sinn slappasta leik í sumar. 

Christian Köhler var á pari við hans frammistöðu hingað til í sumar, sem er ekki mikið til að hrópa húrra fyrir. Rétt eins og í leiknum á móti ÍA voru varamennirnir bestir. Andri Adolphsson og Arnór Smárason komu með meiri kraft í Valsliðið. Þegar uppi var staðið voru einfaldlega allt of margir leikmenn í Valsliðinu sem spiluðu illa. 

Sigur Bodö/Glimt hefði getað verið enn stærri en Hannes Þór Halldórsson stóð vaktina í markinu ágætlega, fyrir utan þegar hann gaf víti á klaufalegan hátt. Valur er vissulega á toppi deildarinnar og það er alls engin ástæða til að örvænta, en liðið getur miklu betur en það hefur sýnt síðustu vikur og mánuði. Þótt úrslitin hafa verið í lagi til þessa í deildinni hlýtur Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, að vilja sjá meira frá sínum mönnum inn á vellinum. 

Valur 0:3 Bodö/Glimt opna loka
90. mín. Sigurd Kvile (Bodö/Glimt) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert