Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hagnaðist um tæplega 24 milljarða króna árið 2022, sem má einkum rekja til sölu á 28 milljarða króna sölu á hlut félagsins í Tempo. Félagið birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Stjórn Origo mun leggja fram tillögu á aðalfundi félagsins þann 3. mars um 2 milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa. Origo hafði þegar greitt út 24 milljarða króna til hluthafa með lækkun hlutafjár í desember.

Sala Origo árið jókst um 10,6% á milli ára og nam 20,1 milljarði króna. Framlegð félagsins jókst um 11,8% og nam 5,4 milljörðum.

„Að baki er ár sem markar tímamót í rekstri Origo. Fyrir tveimur árum síðan lögðum við upp í vegferð sem miðaði að því að ýta undir frekari sjálfstæði teymanna okkar, gera vöruframboð hnitmiðaðara og sterkara, auka veg nýsköpunar til muna og taka nær okkur þau samfélagsmál sem við töldum okkur geta haft áhrif á í gegnum starfsemi Origo,“ segir Jón Björnsson, forstjóri Origo.

„Við hófum strax vegferðina en 2022 er árið sem við sáum fleiri þætti komast í framkvæmd. Árangurinn af þessari vinnu skilar sér í góðum tekjuvexti upp á 10,6%, einu besta rekstrarári félagsins með mjög viðunandi EBITDA upp á 8,3%.“

Eignir Origo í árslok voru bókfærðar á 15,7 milljarða króna. Eigið fé félagsins var um 8,5 milljarðar.

Framtakssjóðurinn Umbreyting II, í rekstri Alfa Framtaks, keypti nýlega 29,3% hlut í Origo. Þann 19. janúar síðastliðinn lagði Alfa Framtak fram valfrjálst tilboð í allt hlutafé fyrirtækisins á genginu 101 króna á hlut. Tilboð Alfa gildir til kl. 13:00 á miðvikudaginn 22. febrúar.