Finnur ekki fyrir pressu frá Beckham

Phil Neville á hliðarlínunni í Bandaríkjunum.
Phil Neville á hliðarlínunni í Bandaríkjunum. AFP

„Ég er búinn að vera í fótbolta nógu lengi til að þekkja afleiðingarnar,“ sagði Phil Neville tæpitungulaust í samtali við fjölmiðla eftir 5:0-tap Inter Miami gegn Arnóri Ingva Traustasyni og félögum í New England Revolution í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu.

Neville hefur verið þjálfari Miami, sem er meðal annars í eigu Davids Beckhams, síðan í janúar en gengi liðsins hefur verið afleitt. Ekkert lið er með verri árangur í MLS-deildinni á leiktíðinni og eru lærisveinar Nevilles á botni austurdeildarinnar eftir sex tapleiki í röð.

Hann segist þó ekki finna fyrir óþarfa pressu frá gamla liðsfélaga sínum en Neville og Beckham spiluðu saman hjá Manchester United í fjölda ára. „Ég finn fyrir þeirra stuðningi og hef alltaf gert það. Þeir þurfa ekki að deila sínum áhyggjum með mér, við erum á sömu blaðsíðunni.“

Meðal leikmanna Inter Miami eru Gonzalo Higuaín, fyrrverandi leikmaður m.a. Real Madrid, Napoli og Juventus, Blaise Matuidi, fyrrverandi leikmaður m.a. Juventus og París SG, og Ryan Shawcross sem lék um árabil með Stoke í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert