Elín hetjan í dramatískum sigri

Elín Jóna Þorsteinsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handknattleik, reyndist hetja Ringköbing þegar liðið vann dramatískan sigur á Ajax, 28:27, í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Elín Jóna átti flottan leik þar sem hún varði sjö skot af þeim 23 sem hún fékk á sig, og var þannig með tæplega 30,5 prósent markvörslu.

Ein markvarslan reyndist gulls ígildi þar sem hún varði frábærlega frá Sunu Hansen, leikmanni Ajax, eftir gegnumbrot þegar aðeins sex sekúndur voru eftir á leikklukkunni.

Ringköbing var þá einu marki yfir, tók í kjölfarið leikhlé og sigldi svo fræknum eins marks sigri í höfn.

Með sigrinum hafði Ringköbing sætaskipti við Ajax og er nú í  11. sæti með 9 stig á meðan Ajax er í 12. sæti með 7 stig. 14 lið eru í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert