Reza Mirza, nýr forstjóri Icelandic Water Holdings samstæðunnar, bendir á að breyttar neysluvenjur í faraldrinum hafi gert það að verkum að hlutfall Amazon í viðskiptamódeli félagsins hafi farið úr 1% upp í 20%.

„Covid neyddi fólk til venjast því að versla á netinu þar sem það vildi ekki fara út úr húsi. Þessar breyttu neysluvenjur hafa umbylt rekstrinum okkar þannig að 20% af sölunni okkar koma frá Amazon.“

Hann bætir við að sala á netinu hafi þó lítillega dregist saman á þessu ári þar sem ekki hafi tekist að framleiða nægilegt framboð til að anna eftirspurninni. Þar spili inn flöskuhálsar í virðiskeðjunni, sér í lagi þegar kemur að flutningi. Þegar framboðið nægir ekki eftirspurn sé mikilvægt að anna eftirspurninni í hefðbundnum verslunum og fylla hilluplássin.

„Ef við fyllum ekki hillurnar í verslunum, þá munu Coke eða Pepsi taka þær hillur og með tímanum missum við hilluplássið. Því er betra fyrir okkur að vera uppseldir á Amazon en að vera uppseldir í hefðbundnu verslununum,“ segir Jón.

Tvívegis hækkað verð á árinu

Jón bætir við að kostnaðarhliðin hafi aukist vegna vandræða í flutningum. Félagið hafi þurft að hækka verð tvisvar sinnum á árinu, um 6% í byrjun árs og aftur um 15% í júní. „Við höfðum verið með lægra verð en okkar samkeppnisaðilar en núna erum við að færa okkur upp í sama verð.“

Jón segir þó faraldurinn hafa reynst blessun fyrir félagið á meðan hann reyndist bölvun fyrir mörg önnur félög. Frá upphafi hafi félagið viljað koma þeim skilaboðum áleiðis hversu hollt og gott vatnið hjá Icelandic Glacial sé. Í Covid hafi fólk farið að huga að heilsunni í auknum mæli sem hafi skilað sér í auknum vexti hjá félaginu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.