Aðsóknin meiri en á stærstu helgunum í fyrra

Frá öðru túninu við tjaldsvæðið á Hörgslandi sem gestum var …
Frá öðru túninu við tjaldsvæðið á Hörgslandi sem gestum var leyft að tjalda á. Ljósmynd/Aðsend

Heyja þurfti tvö tún við tjaldsvæðið á Hörgslandi í gær til að anna eftirspurn eftir plássi. Miklar annir hafa verið á tjaldsvæðum víða á landsbyggðinni enda veðrið afar gott.

Tjaldsvæðið á Hörgslandi er staðsett tæpum tveimur kílómetrum fyrir austan Kirkjubæjarklaustur.

Sveinbjörn Sveinsson, rekstrarstjóri tjaldsvæðisins, segir þau hafa tekið ákvörðun um að opna annað tún í gærkvöldi og fólk hafi beðið í röðum eftir að komast inn á það. Fyrsta túnið hafi verið opnað um síðustu helgi. 

Yfirlitsmynd yfir túnin sem opnuð voru gestum.
Yfirlitsmynd yfir túnin sem opnuð voru gestum. Ljósmynd/Aðsend

„Alveg æðislegt veður“

Fullt er á öðrum tjaldsvæðum og Sveinbjörn segir óhemju mikið af fólki á svæðinu. Aðsóknin er meiri núna en á stærstu helgunum í fyrra.

Heyja þurfti túnin til að geta hleypt gestum að og lögðust allir á eitt til að láta hlutina ganga upp.

Sveinbjörn segir mjög góða stemningu á svæðinu: „Það er náttúrlega alveg æðislegt veður, það er mikill hugur í fólki og allir að skemmta sér vel. Krakkar leika sér í ánni og á túnunum,“ segir hann.

Nokkurt álag er á þjónustu tjaldsvæðisins og ákveðið var að lengja þjónustutíma móttökunnar. Þá eru klósett og önnur aðstaða þrifin oftar en áður.

Salernisaðstaðan er að sögn Sveinbjörns helsti flöskuhálsinn í að hleypa fleira fólki að á tjaldsvæðið og túnin. Ekki hafi verið búist við þessum gríðarmikla fjölda.

Frá tjaldsvæðinu á Hörgslandi.
Frá tjaldsvæðinu á Hörgslandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert