Kemst Fram upp fyrir Keflavík?

Framarar fagna marki á nýja Framvellinum.
Framarar fagna marki á nýja Framvellinum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Eins og síðustu tvo daga er einn leikur á dagskrá í 11. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Keflavík og Fram eigast við á Suðurnesjunum. 

Bæði lið hafa komið á óvart með skemmtilegri spilamennsku og góðri stigasöfnun en þau eru sex og fimm stigum frá fallsæti. 

Keflavík er í 7. sæti deildarinnar með 11 stig. Liðið er taplaust í þremur leikjum í röð í deildinni en hefur ekki spilað leik síðan 16. júní. Það var gegn Stjörnunni á sama velli sem endaði með 2:2 jafntefli þar sem Keflavík jafnaði tvisvar eftir að hafa lent undir. 

Úkraínumaðurinn Ivan Kalyuzhnyi verður hinsvegar í leikbanni í leiknum í kvöld og er einnig sagður á leiðinni frá félaginu. Það er mikill missir fyrir Keflavík. 

Fram er í 8. sæti deildarinnar með 10 stig. Liðið er einnig taplaust í þremur leikjum í röð í deildinni en tapaði síðasta leik sínum illa, 4:1 gegn KA í Mjólkurbikarnum. 

Fram gerði frægt 3:3 jafntefli við ÍBV í fyrsta leik sínum á nýja Framvellinum í Úlfarsárdal um daginn. Þar skoraði níu marka maðurinn Guðmundur Magnússon þrennu. Hann hefur verið í feykilegu formi á tímabilinu og er næst markahæstur í deildinni. 

Með sigri geta bæði félög nálgast efstu sex félögin í deildinni, og þá sérstaklega KR sem er með 16 stig og búið að spila tveimur leikjum meira. 

Liðsmenn Keflavíkur fagna marki fyrr í sumar.
Liðsmenn Keflavíkur fagna marki fyrr í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert