Sagðist ekki hafa vitað af fólkinu

39 Víetnamar fundust látnir um borð í vöruflutningabíl í Essex …
39 Víetnamar fundust látnir um borð í vöruflutningabíl í Essex í Bretlandi í fyrra. AFP

Flutningabílstjóri sagðist í réttarhöldum vegna dauða 39 Víetnama ekki hafa vitað að fólkið hafi verið inni í gámi sem hann ók.

Eamonn Harrison, 23 ára, sagði við kviðdóm að hann hafi ekki vitað að fólkið hafi verið sett inn í gáminn, sem hann ók til Zeebrugge í Belgíu 22. október á síðasta ári.

Hælisleitendurnir, þar á meðal tveir fimmtána ára piltar, köfnuðu inni í gámnum. Hitinn var mikill og ekkert loft komst inn. Líkin fundust snemma dags 23. október eftir að gámurinn hafði verið fluttur til hafnarinnar Purfleet í Essex á suðausturhluta Englands.

Sagðist vera „eyðilagður“

Harrison, sem er norðurírskur, kveðst vera saklaus af aðild að manndrápi í 39 liðum, Hann sagðist vera „eyðilagður“ þegar hann hugsar til fjölskyldna fólksins og að honum líði „ömurlega“ vegna dauðsfallanna.

Hann er einn fjögurra manna sem eru fyrir rétti í London eftir að hafa verið ákærðir í málinu. Georghe Nica, 43 ára, hefur einnig neitað aðild að manndrápi í 39 liðum en hefur játað að hafa tekið þátt í samsæri um að smygla fólki.

Valentin Calota, 37 ára, og Christopher Kennedy, 24 ára, hafa lýst yfir sakleysi sínu af ákæru um að smygla fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert