Mikil ánægja með áform Willums

Steinunn Þórðardóttir, formaður LÍ, fagnaði innilega þegar blaðamaður flutti henni …
Steinunn Þórðardóttir, formaður LÍ, fagnaði innilega þegar blaðamaður flutti henni fregnirnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands fagnaði því innilega þegar hún fékk fregnir af því að heilbrigðisráðherra hefði sett af stað vinnu við lagafrumvarp til þess að afnema refsinæmi heilbrigðisstarfsfólks. 

Áform þessi voru tilkynnt á ársfundi Landspítalans í Hörpu, en Steinunn var fjarri góðu gamni enda stödd á fundum út á landi, og heyrði því fyrst af þeim í samtali við blaðamann. 

„Við fögnum því! Okkar viðbrögð eru mikil gleði og ánægja. Við erum búin að vera að benda á þetta árum saman og erum því virkilega glöð að heyra að heilbrigðisráðherra hafi hlustað.“

Mikilvægt fyrir öryggi starfsfólks og sjúklinga

Árið 2015 var gerð skýrsla um skaðlega eiginleika einstaklingsrefsiábyrgðar heilbrigðisstarfsfólks. 

„Við höfum verið óþolinmóð enda er þetta gríðarlega mikilvægt fyrir okkar starfsöryggi og öryggi sjúklinga, sem er auðvitað lokamarkmiðið í þessu.“

Bættir verkferlar

Steinunn bendir á að með því að ákæra einstaka starfsmenn sé dregið úr skilvirkri öryggismenningu enda veigri fólk sér við að láta vita af alvarlegum atvikum, af ótta við að verða gert persónulega ábyrgt. 

„Við höfum búið við þennan veruleika og verið hugsi yfir því hvers vegna þessu hefur ekki verið forgangsraðað.“

Hún telur að þessi breyting eigi eftir að leiða til betri öryggismenningar innan heilbrigðisstofnana og gagnast til að bæta verkferla enda verði fólk tilbúnara til að benda á það sem betur megi fara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert