Morguninn var afar rólegur á íslenska hlutabréfamarkaðnum en velta á aðalmarkaðnum nemur innan við hálfum milljarði króna það sem af er degi. Mesta veltan í Kauphöllin hefur verið með hlutabréf Alvotech sem hafa hækkað um 6,8% í 130 milljóna viðskiptum á First North-markaðnum.

Gengi Alvotech stendur nú í 942 krónum á hlut samanborið við 882 krónur í lok síðustu viku en gengið féll um 5,4% á föstudaginn.

Alvotech tilkynnti á fimmtudagskvöldið síðasta að forstjórinn Mark Levick hefði óskað eftir að láta af störfum og að Róbert Wessman muni taka við starfi forstjóra þann 1. janúar næstkomandi. Við lokun Kauphallarinnar á föstudaginn var tilkynnt um að Nasdaq Iceland hefði samþykkt beiðni Alvotech um töku hlutabréfa félagsins á aðalmarkaðnum.

Á aðalmarkaðnum hefur mesta veltan verið með hlutabréf Festi sem hafa hækkað um 2,8% í 63 milljóna veltu. Nova hefur hækkað næst mest eða um 1% í 52 milljóna veltu.