„Þetta er samhljóma niðurstaða“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst ekki hafa kynnt sér ítarlega niðurstöðu Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu en sýnist þó að um skýrari niðurstöðu sé að ræða en þá fyrri í Landsréttarmálinu.

Dómstóllinn komst fyrr í dag ein­róma að þeirri niður­stöðu að ís­lenska ríkið hefði brotið gegn sjöttu grein sátt­mál­ans við meðferð máls Guðmund­ar Andra Ástráðsson­ar, sem ákærður var fyr­ir um­ferðarlaga­brot fyr­ir Lands­rétti.

„Þetta er samhljóma niðurstaða sem ekki var í fyrra tilfellinu,“ segir Katrín við blaðamann mbl.is eftir ríkisstjórnarfund.

Dómurinn kveði á um annmarka varðandi skipan fjögurra dómara en ekki allra alls dómsins. „Auðvitað er dómurinn gagnrýninn gagnvart fyrrverandi ráðherra en einnig Alþingi og Hæstarétti,“ segir forsætisráðherra.

Katrín bendir á að þrír af þessum fjórum dómurum hafa þegar gengið í gegnum nýtt tilnefningarferli til að öðlast sæti við réttinn. Niðurstaðan ætti að hennar mati því ekki að hafa áhrif á Landsrétt.

„Enn fremur vekur það athygli að ekki er gerð krafa um endurupptöku mála,“ segir Katrín og bendir á að endurupptökudómstóll, sem sé stofnsettur í dag, verði starfhæfur eftir áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert