Sjúkást hlaut stærsta styrkinn

Sjúkást er forvarnaverkefni á vegum Stígamóta um ofbeldi í nánum …
Sjúkást er forvarnaverkefni á vegum Stígamóta um ofbeldi í nánum samböndum ungmenna.

Samtals voru 25 milljónir veittar í styrki úr Jafnréttissjóði Íslands í dag en Stígamót hlutu stærsta styrkinn, eða fimm milljónir króna, fyrir „Sjúkást spjallið“ sem er netspjall fyrir unglinga um ofbeldi.

Alls barst 81 umsókn til Jafnréttissjóðs og fengu átta rannsóknar- og fræðsluverkefni styrk. Jafnréttisstjóður vill með þessum hætti styrkja verkefni og rannsóknir sem hafa það markmið að efla kynjajafnrétti á Íslandi.

Athöfnin var haldin í dag í Hörpu en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra veitti styrkina. Katrín segir bakslag í jafnréttismálum á síðustu árum á alþjóðavísu, og þá sérstaklega í faraldrinum, undirstrika brýna þörf að veita þessu málefni stuðning. Hvetur hún þá fólk til að fagna framfaraskrefum en á sama tíma vera meðvitað um að halda baráttunni áfram.

Jafnréttissjóður hefur verið starfræktur frá árinu 2015 á 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna en á morgun, 19. júní, verða 106 ár frá því konur hlutu fyrst kosningarétt á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert