Erlent

Enn einni eldflauginni skotið frá Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa töluverðar áhyggjur af ítrekuðum eldflaugaskotum frá Norður-Kóreu.
Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa töluverðar áhyggjur af ítrekuðum eldflaugaskotum frá Norður-Kóreu. AP/Ahn Young-joon

Enn einni eldflauginni var skotið frá Norður-Kóreu í morgun. Að þessu sinni var um að ræða skammdræga eldflaug og var henni skotið til austurs, á haf út frá Kóreuskaganum.

Hernaðaryfirvöld í Suður-Kóreu og Japan segja eldflaugina hafa flogið um átta hundruð kílómetra í allt að fimmtíu kílómetra hæð, áður en hún hæfði skotmark sitt, samkvæmt frétt Reuters.

Miklum fjölda eldflauga hefur verið skotið frá Norður-Kóreu á undanförnum vikum og hafa þær verið af margvíslegum gerðum. Á meðal þeirra hafa verið eldflaugar hannaðar til að bera kjarnorkuvopn.

Norður-Kóreumenn hafa um árabil unnið að þróun kjarnorkuvopna og eldflauga sem borið geta þau vopn hvert sem er í heiminum. Þessi þróunarvinna fer gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Fyrr í vikunni var langdrægri eldflaug skotið frá Norður-Kóreu og var það gert skömmu fyrir fund þeirra Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, og Yoon Suk Yeol, forseta Suður-Kóreu, þar sem þeir voru meðal annars að ræða aukna samvinnu gegn Norður-Kóreu.

Sjá einnig: Fyrsti fundur ráðamanna Japans og Suður-Kóreu í tólf ár

Yonhap fréttaveitan frá Suður-Kóreu segir að í kjölfar eldflaugaskotsins í morgun hafi Bandaríkjamenn sent B-1B sprengjuflugvél til Suður-Kóreu, þar sem hún verður notuð til æfinga. Rétt rúmar tvær vikur eru síðan sama flugvél var notuð við aðrar æfingar yfir Suður-Kóreu.

Bæði Japanir og Suður-Kóreumenn hafa miklar áhyggjur af auknum vopnatilraunum í Norður-Kóreu og mikilli hernaðaruppbyggingar í Kína.

Varnarmálaráðherra Japans fordæmdi eldflaugaskotið í morgun og sagði hegðun yfirvalda í Norður-Kóreu óásættanlega og ógna heimsfriði.


Tengdar fréttir

Norður-Kóreu­menn skutu eld­flaug inn í loft­helgi Japana

Norður-Kóreumenn skutu langdrægri eldflaug í hafið við Vesturströnd Japans í morgun. Í gær vöruðu þeir nágranna sína til Suðurs og Bandaríkjamenn við því að þeir myndu bregðast harkalega við æfingum herja þjóðanna tveggja á næstu dögum.

Versn­and­i fæð­u­­skort­ur í Norð­ur-Kór­e­u

Fæðuskortur Norður-Kóreu hefur farið versnandi að undanförnu og hafa yfirvöld meðal annars dregið úr matarskammti hermanna. Ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur viðurkennt vandamálið og sagt að þróun í landbúnaði sé eitt mikilvægasta verkefni þessa árs.

Vilj­a eig­in kjarn­ork­u­vopn af ótta við Norð­ur-Kór­e­u

Sífellt fleiri íbúar Suður-Kóreu eru þeirrar skoðunar að ríkið eigi að koma upp eigin kjarnorkuvopnum, til móts við vopn nágranna þeirra í Norður-Kóreu. Þá efast margir um að ríkið geti reitt sig á að Bandaríkjamenn komi þeim til varnar komi til stríðs á Kóreuskaganum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×