Eins og ef Bjarni væri að stökkva 10,27 metra

Bergþór Ólason líkti auknum ríkisútgjöldum við nýtt heimsmet í langstökki.
Bergþór Ólason líkti auknum ríkisútgjöldum við nýtt heimsmet í langstökki. Samsett mynd

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, greip til samlíkingar við frjálsar íþróttir og heimsmet þegar hann gerði athugasemdir við fjárlög, sem nú liggja fyrir þinginu, í umræðum á Alþingi í dag.

Gagnrýndi Bergþór mikla útgjaldaaukningu ríkissjóðs, eins og hann gerði einnig í síðustu viku, og sagði að aukningin væri „stjórnlaus“.

Jafnframt sagði Bergþór þetta bæði vera met í útgjaldaaukningu milli ára sem og hlutfallslegri aukningu.

„Það met var styrkt enn og bætt með þeim viðbótartillögum sem ráðherra gerði í gegnum nefndina við aðra umræðu,“ bætti hann við.

Mike Powell setti metið árið 1991

Nefndi Bergþór að útgjaldaaukningin væri 51 milljarður og vísaði þar til fyrri orða sinna í síðustu viku þar sem hann sagði tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir 37 milljarða útgjaldaaukningu og 14 milljörðum til viðbótar í vaxtagreiðslur.

Kallaði hann eftir því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra myndi mæta í þingið til að ræða fjárlögin í annarri umræðu í stað forsögumanna fjárlaganefndar. Sagði hann ljóst að langstærsti hluti aukningarinnar væri til kominn frá ríkisstjórninni en ekki fjárlaganefndinni.

Því næst líkti hann útgjaldaaukningunni við það ef sett væri nýtt heimsmet í vinsælli grein í frjálsum íþróttum, nánar tiltekið í langstökki.

„Ef við setjum þetta í samhengi við íþróttir. Ef hæstvirtur fjármálaráðherra væri að bæta heimsmetið í langstökki jafn mikið hlutfallslega og útgjaldaaukningin er á milli ára þá væri hæstvirtur ráðherra, Bjarni Benediktsson, að stökkva 10 metra og 27 sentímetra,“ sagði Bergþór og bætti við að allir vissu að það gæti enginn gert.

Þess má geta að heimsmetið í langstökki er 8,95 metrar. Það var sett af Bandaríkjamanninum Mike Powell árið 1991 og er eitt þeirra meta sem hefur staðið lengst í frjálsum íþróttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert