„Það væri betra ef þú værir dauður“

AFP

Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur beðist afsökunar og heitið því að tekið verði á áreitni á vinnustaðnum í kjölfar sáttar sem gerð var við fjölskyldu starfsmanns sem framdi sjálfsvíg eftir að hafa þurft að þola linnulausa áreitni af hálfu yfirmanns.

„Það væri betra ef þú værir dauður,“ fékk 28 ára verkfræðingur sem starfaði fyrir Toyota að heyra ítrekað frá yfirmanni sínum. Hann framdi sjálfsvíg árið 2017 eftir endalaust einelti á vinnustaðnum.

Árið 2019 var úrskurðað að andlát hans væri vinnutengt og í apríl á þessu ári gerði Toyota sátt við fjölskyldu unga mannsins um miskabætur án þess að málið færi fyrir dóm. 

Í yfirlýsingu frá Toyota í dag kemur fram að fyrirtækið harmi andlát mannsins og taki það alvarlega að starfsmaður hafi týnt lífi með þessum hætti. 

Ekki er upplýst um hvað samkomulagið felur í sér og Toyota hefur ekki upplýst um afdrif yfirmannsins annað en að honum hafi verið refsað. 

Yoshihide Tachino, lögfræðingur fjölskyldunnar, segir að forseti Toyota, Akio Toyoda, hafi heimsótt fjölskylduna til þess að biðja hana afsökunar í eigin persónu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka