Með tilraunaborholur í Trölladyngju

Horft í átt að Keili frá höfuðborgarsvæðinu.
Horft í átt að Keili frá höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hari

Tvær tilraunaborholur HS Orku eru staðsettar á Höskuldarvöllum í Trölladyngju. Forstöðumaður viðskiptaþróunar segir að fyrirtækið hafi ekki miklar áhyggjur af holunum, sem voru boraðar árið 2004, þrátt fyrir mögulegt eldgos í nágrenninu.

„Þetta er svæði sem hefur verið horft til með jarðvarmanýtingu í huga í gegnum tíðina en þessar tvær holur eru ekki okkar megináhyggjuefni,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson.

Tilraunaborholur eru einnig í Krýsuvík en þær eru fjær hættusvæðinu.

Ekki áhyggjur af kviku neðanjarðar

Á Vísindavefnum kemur fram að það hafi aldrei gerst að jarðskjálftar hafi skaðað borholur nema í einu tilviki. Þá gekk jarðskjálftasprunga í gegnum borholu í Bjarnarflagi í Kröflueldum. Einnig endaði borun við Vítismó snögglega sumarið 2009 þegar bráðin hraunkvika kom upp af um 2.100 metra dýpi og borinn stóð fastur. 

Jóhann Snorri segir ólíklegt að kvika komist í gegnum þessar tilraunaborholur miðað hvar menn sjá kvikuna í dag. Hann segir kvikuna vera á meira dýpi en borholurnar, eða yfir þriggja kílómetra, og að hún sé ekki á alveg sama svæði og holurnar. Þess vegna hafi kvikan engin bein áhrif á starfsemi HS Orku. 

Þær borholur fyrirtækisins sem eru ekki tilraunaborholur eru annars staðar en á svæðinu á milli Keilis og Fagradalsfjalls þar sem óttast er að eldgos verði, eða í 10 til 12 km í burtu. Um 20 borholur eru við virkjunina í Svartsengi og eru þær af mismunandi gerð.

Borhola númer 29 á Reykjanesi.
Borhola númer 29 á Reykjanesi. mbl.is/Golli

Engar breytingar á jarðhitakerfum

HS Orka hefur heldur ekki áhyggjur af áhrifum mögulegs eldgoss á Reykjanesskaga á jarðhitavinnslu fyrirtækisins. „Miðað við það sem menn eru að horfa á núna þá gæti staðsetningin verið verri,“ segir Jóhann Snorri. Engar breytingar hafa sést á jarðhitakerfum vegna jarðhræringanna að undanförnu. Hann segir jarðskjálfta vera nauðsynlega fylgifiska jarðhitavinnslu. Hver einasti jarðskjálfti geti haft góð eða slæm áhrif á kerfið. „Við höfum engar beinar áhyggjur.“

HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi; Svartsengi …
HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi; Svartsengi og Reykjanesvirkjun. Mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Í samstarfi við almannavarnir

Vísindamenn HS Orku eru í vísindaráði almannavarna og fylgst er vel með stöðu mála vegna stöðunnar á Reykjanesskaga. Jóhann segir fyrirtækið hafa verið á sérstöku varðbergi síðustu 14 mánuði og eru starfsmenn því vel á tánum. Þegar jarðskjálftahrinan hófst í síðustu viku var varúðarstigið hækkað og hafa neyðaráætlanir verið skoðaðar að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert