Samkvæmisljón vænta hárra sekta

Svipmikill miðbær gömlu Hansakaupmannaborgarinnar Bergen þar sem verulega hefur sigið …
Svipmikill miðbær gömlu Hansakaupmannaborgarinnar Bergen þar sem verulega hefur sigið á ógæfuhliðina í kórónumálum síðustu vikur með smittölum sem miðað við íbúafjölda eru mun hærri en í höfuðborginni Ósló þar sem staðan er þó ískyggileg. Ljósmynd/Wikipedia.org/Pål S. Schaathun

Rúmlega 30 skemmtanaglaðir Björgvinjarbúar mega vænta hárra sekta, allt að 10.000 norskum krónum, um 150.000 íslenskum, eftir brot á sóttvarnareglum í höfuðstað Vestur-Noregs aðfaranótt gærdagsins.

Bárust lögreglu borgarinnar þá tilkynningar um gleðskap á tveimur stöðum, annars vegar á stúdentagörðum í Fantoft, þar sem 16 manns skemmtu sér í litlu rými, og hins vegar í Sandviken, þar sem 15 manna samkvæmi var haldið, en samkvæmt nýjustu sóttvarnareglum borgarinnar, sem gilt hafa frá 7. nóvember, mega nú ekki fleiri en fimm manns koma saman nema allir búi undir sama þaki.

Miðar úti um allt

„Mér finnst þetta mjög óábyrg háttsemi. Hér eru miðar [með reglum] úti um allt og við megum ekki einu sinni vera fleiri en tvö samtímis í lyftunni,“ segir Stine Ruud Larsen, 25 ára gömul námsmær sem býr á stúdentagörðunum, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

„Lög eru lög og það eru engar undantekningar fyrir stúdenta. Þessar reglur eru ekki settar að ástæðulausu,“ segir Larsen og kveður skólasystkin sín verðskulda sektir.

Tatjana Knappen, aðgerðastjóri vesturumdæmis norsku lögreglunnar, segir samkvæmisljón helgarinnar hafa verið á þrítugsaldri og að hennar mati sé það dapurlegt að lögreglan þurfi að taka þau skref að kæra fólk fyrir sóttvarnabrot.

Einhverjir nemendanna munu hafa verið erlendir og segir Helene Pedersen, annar háskólanemi, að sektirnar svíði þeim mun meira hafi hinir seku ekki skilið reglurnar sem þó er hæpið þar sem þær hanga uppi um alla veggi stúdentagarðanna á norsku og ensku.

„Vona að þau fái sektir“

Beate Husa, borgarfulltrúi sem hefur lýðheilsumál á sinni könnu, segir atvikin mikil vonbrigði, ekki síst í ljósi þess að kórónuveirusmit í Bergen hafi farið algjörlega úr böndunum síðustu vikur eins og mbl.is hefur fjallað um.

„Þegar útbreiðslan er eins og hún er núna í Bergen er það óheppilegt og krefjandi þegar fólk fer ekki að reglum,“ segir Husa og hrósar lögreglunni fyrir að ganga í málið af festu.

„Ég vona að þau fái sektir. Ég hugsa að það geti haft þau varnaðaráhrif að við sjáum ekki meira af svona löguðu,“ segir borgarfulltrúinn við NRK.

NRK

TV2

Bergensavisen (læst öðrum en áskrifendum)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert