Tvö ár fyrir brot í nánu sambandi

Manninum er gert að sæta tveggja ára fangelsi.
Manninum er gert að sæta tveggja ára fangelsi. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi mann á fimmtugsaldri í tveggja ára fangelsi í dag fyrir brot í nánu sambandi og kynferðisbrot, með því að hafa ráðist að brotaþola í bifreið skammt utan Reykjavíkur. Var ákærða gefið að sök að hafa ráðist að brotaþola með ofbeldi, hótunum, stórfelldum ærumeiðingum og sært blygðunarsemi brotaþola. 

Sló ákærði ítrekað í líkama brotaþola og hótaði henni með orðsendingum á borð við „hættu að ljúga annars fokking drep ég þig“, „ég ætla að keyra þig heim, ég ætla að keyra hraðar svo þú drepist, afskræmist og þú verðir öll ógeðslega afskræmd,“ ásamt orðsendingum sem taldar eru upp í tíu liðum í dóminum.

Leit dómurinn til heimilisofbeldisákvæðis 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga en í athugasemdum með lögunum segir m.a. að með 4. gr. frumvarpsins sé lagt til að tekið verði upp sérstakt ákvæði í almenn hegningarlög sem fjalli um ofbeldisbrot í nánum samböndum þar sem áhersla sé lögð á það ógnarástand sem sú tegund ofbeldis geti skapað og þá langvarandi andlegu þjáningu sem því geti fylgt.

Á ákærði að baki sakaferil og hefur verið dæmdur fyrir líkamsárásir og fíkniefnalagabrot en neitaði ákærði sök og krafðist verjandi ákærða þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara yrði ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.   

Var ákærði dæmdur eins og áður sagði í tveggja ára fangelsi auk greiðslu miskabóta upp á tvær milljónir en einnig voru eigur ákærða, á borð við hnúajárn, fíkniefni og stera gerð upptæk. 

Dómur héraðsdóms 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert