Aldís Mjöll kjörin forseti Ungmennaráðs Norðurlandaráðs

Aldís Mjöll Geirsdóttir.
Aldís Mjöll Geirsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Aldís Mjöll Geirsdóttir, alþjóðafulltrúi Ungra Jafnaðarmanna (UJ), var í dag kjörin forseti Ungamennaráðs Norðurlandaráðs fyrir starfsárið 2020-2021, en árlegt þing UNR fór fram í dag. 

Þetta er í annað skipti sem íslenskur fulltrúi gegnir þessari stöðu og er Aldís fyrst kvenna til að gegna stöðunni fyrir hönd íslensks ungmennafélags. Síðasti fulltrúinn sem gegndi stöðunni fyrir hönd Íslands var Andrés Jónsson og gegndi hann stöðunni árið 2005, að því er segir í tilkynningu. 

UNR er samnorrænn vettvangur þar sem ungt fólk frá ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka á Norðurlöndunum kemur saman og hefur áhrif á ákvarðanir Norðurlandaráðs, sameiginlegs vettvangs þingmanna á Norðurlöndunum. UNR gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að veita ungu fólki rödd í heimi stjórnmálanna enda setur ráðið lykilmál sem varða ungt fólk á Norðurlöndunum á dagskrá. UNR hefur sem dæmi unnið að eflingu norræns samstarfs á sviði loftslags- og umhverfismála, segir ennfremur. 

Þingið, sem átti að fara fram í Reykjavík, fór fram í gegnum fjarfundarbúnað í dag vegna heimsfaraldurs Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert