Brescia komið í umspilið

Birkir Bjarnason er á leið í úrslitaleiki um sæti í …
Birkir Bjarnason er á leið í úrslitaleiki um sæti í A-deildinni á Ítalíu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Brescia tryggði sér í dag sæti í umspilinu um sæti í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu með góðum útisigri á Monza, 2:0, í lokaumferð B-deildarinnar.

Monza hefði getað komist beint upp í A-deildina með sigri þannig að verkefnið var erfitt fyrir Birki Bjarnason og félaga en Florian Aye og Massimiliano Mangraviti skoruðu upp úr miðjum síðari hálfleik. Birki var síðan skipt af velli á 80. mínútu og félagar hans héldu fengnum hlut. Hólmbert Aron Friðjónsson lék ekki með Brescia í dag. Liðið endaði í sjöunda sæti en liðin í sætum þrjú til átta fara í umspil um eitt A-deildarsæti.

Venezia, lið Bjarka Steins Bjarkasonar og Óttars Magnúsar Karlssonar, var þegar búið að tryggja sér sæti í umspilinu og endaði í fimmta sæti eftir 1:1 jafntefli gegn Cittadella. Bjarki lék allan leikinn með  Venezia en Óttar er frá keppni vegna meiðsla.

Empoli með 73 stig og Salernitana með 69 stig eru komin upp í A-deildina. Í umspilið fara Monza með 64 stig, Lecce með 62, Venezia með 59, Cittadella með 57, Brescia með 56 og Chievo með 56 stig. SPAL situr eftir í níunda sætinu, líka með 56 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert