Má yfirgefa United

Aaron Wan-Bissaka má yfirgefa Manchester United.
Aaron Wan-Bissaka má yfirgefa Manchester United. AFP/Anthony Devlin

Enski knattspyrnumaðurinn Aaron Wan-Bissaka má yfirgefa herbúðir Manchester United. Wan-Bissaka hefur verið hjá félaginu frá árinu 2019 en United keypti leikmanninn af Crystal Palace á 50 milljónir punda.

Sky Sports greinir frá að United vilji helst selja Wan-Bissaka en félagið sé opið fyrir lánstilboðum, svo lengi sem það feli í sér skyldu til að kaupa leikmanninn að loknu láni.

Wan-Bissaka hefur leikið 89 leiki með United í ensku úrvalsdeildinni og skorað í þeim tvö mörk. Hann er uppalinn hjá Crystal Palace og lék 42 leiki með liðinu áður en hann skipti yfir til Manchester.

Erik ten Hag, sem tekur við stjórastöðunni hjá United eftir tímabilið, vill bakvörð sem er sterkari í sóknarleiknum. Sóknartilburðir Wan-Bissaka hafa verið gagnrýndir, sérstaklega bornir saman við Trent Alexander-Arnold hjá Liverpool og Reece James hjá Chelsea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert