„Ég boða engar byltingar“

Haraldur Benediktsson alþingismaður.
Haraldur Benediktsson alþingismaður. Ljósmynd/Aðsend

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst spenntur yfir nýju hlutverki sem bæjarstjóri Akraneskaupstaðar en jafnframt auðmjúkur yfir ráðningunni.

Hann hyggst láta af þingmennsku í apríl og mun formlega hefja störf sem bæjarstjóri 1. maí næstkomandi. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt starf að vera þingmaður og vissulega eftirsjá af því en svo opnast ný tækifæri,“ segir Haraldur sem kveðst ennfremur sjá eftir samstarfsfólki sínu.

Mest spennandi sveitarfélag á landinu

Hann segir Akraneskaupstað eitt mest spennandi sveitarfélag á landinu í örum vexti sem ekkert lát sé á.

„Það er mikil eftirspurn eftir búsetu á Akranesi, fyrirtæki horfa í vaxandi mæli til Akraness. Við erum á þessum einstaka stað norðan Hvalfjarðar sem er mjög gott mótvægi við höfuðborgarsvæðið,“ segir Haraldur.

„Ég tek þarna við einstöku búi kröftugra bæjarfulltrúa og bæjarstjóra þannig að þetta er eins gott og hægt er að hugsa sér.“

Eiga bæjarbúar von á breyttum áherslum þegar að þú tekur við?

„Það er bæjarstjórnin sem leggur línurnar. Ég er þeirra starfsmaður. Það er alltaf áferðarbreyting með nýjum mönnum en ég boða engar byltingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert